Haukar léku sér að Gróttumönnum eins og köttur að mús þegar liðin mættust í 12. umferð Olísdeildar karla í handknattleik í Schenkerhöllinni á Ásvöllum í kvöld. Haukar létu andstæðinginn bragða á sínum eigin meðulum, nokkuð sem Gróttumenn voru ekki búnir undir. Ljóst var að eftir tvo erfiða leiki þá var markmið leikmanna Hauka að reka af sér slyðruorðið og senda sterk skilaboð út til annarra liða í deildinni. Lokatölur, 27:15, fyrir Hauka sem sitja áfram í efsta sæti. Úrslitin voru ráðin í hálfleik en þá stóðu leikar, 15:7.
Eftir jafnar upphafsmínútur settu Haukar í gírinn. Þeir skoruðu sex mörk í röð á tíu mínútna kafla og breyttu stöðunni úr 3:3 í 9:3. Vörnin var frábær og Björgvin Páll Gústavsson fór á kostum í markinu, varði m.a. tvö vítakaöst. Alls varði hann 11 skot í hálfleiknum sem gerði 64,7% hlutfallsmarkvörslu.
Eins léku Haukar um skeið með sjö menn í sókn og neyddu Gróttumenn aftur á línuna. Leikbragð sem leikmenn Gróttu hafa oft beitt með góðum árangri. Eftir 25 mínútur var staðan 12:5. Leikmenn Gróttu voru eins og börn í greipum leikmanna Hauka sem voru sterkari á öllum sviðum.
Haukar voru með átta marka forskot að loknum fyrri hálfleik, 15:7. Munurinn hefði hæglega getað verið meiri.
Ekki tókst Gróttumönnum að koma til baka á fyrsta stundarfjórðungi síðari hálfleiks. Þeir gerðu áfram tóma vitleysur í sókninni. T.d. var dæmdur oftar ruðningur á þá en tölu verður á komið auk þess sem slakar sendingar voru alltof margrar.
Haukar tóku upp þráðinn við að leika með sjö menn í sókn. Nokkuð sem Grótta réði ekkert við. Adam Haukur Baumruk sló upp skotsýningu og skoraði að vild. Ekki stóð steinn yfir steini. Þegar fyrri hálfleikur var hálfnaður var 12 marka munur, 22:10. Úrslitin voru fyrir löngu ráðin.
Sem fyrr segir stóð ekki steinn yfir steini hjá Gróttu ef undan eru skildar allra fyrstu mínútur leiksins. Hvað svo sem það var sem liðsmenn ætluðu fyrir fram að bjóða upp á að þessu sinni er ljóst að það fór allt í handaskolum.
Eftir tvo erfiða leiki upp á síðkastið sýndu leikmenn Hauka hvers þeir eru megnugir, jafnt í vörn sem sókn. Þeir létu ekki nægja að ná góðu forskoti, þeir gengu bara alveg frá andstæðingi sínum.
Mörk Hauka: Adam Haukur Baumruk 8, Ólafur Ægir Ólafsson 4, Orri Freyr Þorkelsson 3, Brynjólfur Snær Brynjólfsson 3, Þráinn Orri Jónsson 3, Jón Karl Einarsson 2, Þorfinnur Máni Björnsson 1, Heimir Óli Heimisson 1, Tjörvi Þorgeirsson 1, Kristófer Márni Jónasson 1.
Varin skot: Björgvin Páll Gústavsson 13, 56,5% – Andri Sigmarsson Scheving 4, 57,1%.
Mörk Gróttu: Daníel Örn Griffin 3, Birgir Steinn Jónsson 3, Ólafur Brim Stefánsson 3, Satoru Goto 2, Andri Þór Helgason 2/1, Jakob Ingi Stefánsson 1, Lúðvík Thorberg Arnkelsson 1.
Varin skot: Stefán Huldar Stefánsson 10, 30,3%.
Öll tölfræði leiksins hjá HBStatz.