- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -

Sigvaldi Björn og norsku meistararnir unnu stórsigur í Bitola

Sigvaldi Björn Guðjónsson fyrirliði Kolstad. Mynd/EPA
- Auglýsing -

Sigvaldi Björn Guðjónsson og félagar í norska meistaraliðinu Kolstad unnu öruggan sigur á Eurofarm Pelister í 1. umferð A-riðils Meistaradeildar Evrópu í handknattleik í Bitola í Norður Makedóníu í kvöld, 31:22. Sigvaldi Björn átti stórleik fyrir Kolstad og skoraði átta mörk, varð næst markahæstur í norska stórliðinu sem tekur þátt í Meistaradeildinni í fyrsta sinn í sögu sinni. Sigvaldi Björn þurfti aðeins níu skot til þess að skora mörkin átta.


Átján ár eru eru síðan Eurofarm Pelister var með í keppninni síðast. Liðið átti ekki möguleika í sterkt norskt lið að þessu sinni og 3.000 heimamenn á áhorfendapöllunum fóru vonsviknir heim. Kolstad var sex mörkum yfir að loknum fyrri hálfleik, 16:10.

Sigvaldi Björn Guðjónsson svífur inn úr hægra horninu í Bitola og skorar eitt átta marka sinna. Mynd/EPA


Adrian Aalberg skoraði níu mörk og var markahæstur leikmanna Kolstad. Thorbjörn Bergerud markvörður fór hamförum í marki Kolstad og varði 48% skota sem á mark hans kom. Á sama tíma voru markverðir Pelister miður sín og vörðu lítið sem ekkert.

Bogdan Radivojevic skoraði sex sinnum fyrir Pelisterliðið.

Danirnir unnu í Kielce

Danska liðið Aalborg Håndbold með Mikkel Hansen og Niklas Landin í broddi fylkingar lagði pólska meistaraliðið Kielce, 34:31, í Kielce í kvöld. Liðin eru í A-riðli eins og Kolstad og Pelister.

Szymon Sicko markahæsti leikmaður Kielce sendir boltan framhjá Henrik Møllgaard Kristian Bjørnsen leikmönnum Aalborg í Kielce í kvöld. Mynd/EPA

Álaborgarliðið var afar öflugt í leiknum og var m.a. þegar komið með þriggja marka forskot að loknum fyrri hálfleik, 18:15.
Hansen skoraði sjö mörk fyrir Aalborg og Lukas Nolsson sex mörk. Szymon Sicko skoraði 11 mörk fyrir Kielce og var sprækasti leikmaður liðsins. Markvarslan er Akkilesarhæll pólska liðsins. Helstu markverðir liðsins er fjarverandi vegna meiðsla. Þar á meðal Andreas Wolff. Landin var þokkalegur í marki Aalborg, varði 10 skot, 26%.

Aðrir leikir í kvöld – B-riðill:
GOG – Celje 38:36 (18:19).
Montpellier – Barcelona 25:30 (11:16).

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -