- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -

Tveir landsleikir við Austurríki fyrir EM

Íslensku landsliðsmennirnir í handknattleik mæta landsliði Austurríki tvisvar rétt fyrir EM í janúar. Mynd/Hafliði Breiðfjörð
- Auglýsing -

Íslenska landsliðið í handknattleik karla leikur tvo leiki við austurríska landsliðið áður en flautað verður til leiks á Evrópumótinu í Þýskalandi í janúar. Báðir leikir verða ytra, 8. og 9. janúar. Fyrsti leikur íslenska landsliðsins á EM verður 12. janúar. Austurríkismenn verða einnig með á EM í Þýskalandi.

Fyrsta æfing á öðrum degi jóla

Eftir því sem næst verður komist heldur íslenska landsliðið frá Íslandi 5. janúar. Það verður við æfingar og keppni ytra frá 6. janúar. Snorri Steinn Guðjónsson, landsliðsþjálfari, sagði í samtali við handbolta.is á dögunum að fyrsta formlega æfing fyrir EM verði 26. desember. Svo vel vill til að ekkert verður leikið í deildarkeppni í Evrópu á milli jóla og nýárs, þar á meðal í Þýskalandi sem stundum hefur verið með kappleiki fram til 30. desember.

Svipað og fyrir HM

Ekki stendur til að landsliðið leiki hér á landi í lok desember eða í byrjun janúar. Leikirnir við Austurríkismenn verða þeir einu í aðdraganda EM. Fyrir HM í upphafi þessa árs lék íslenska landsliðið tvo leiki við Þjóðverja í Þýskalandi áður en haldið var til Svíþjóðar til þátttöku á HM.

Landsliðsmennirnir Elvar Ásgeirsson, Sigvaldi Björn Guðjónsson, Stiven Tobar Valencia, Óðinn Þór Ríkharðsson og Arnar Freyr Arnarsson hressir eftir sæti á EM 2024 var í endanlega í höfn. Mynd/Hafliði Breiðfjörð

Samkvæmt heimildum handbolta.is var reynt að fá leiki hingað heim, m.a. við rúmenska landsliðið, en því miður þá tókst það ekki.

Tveir heimaleikir í nóvember

Aðdáendur karlalandsliðsins þurfa ekki að láta hug falla þótt ekki verði landsleikir hér á landi í desemberlok eða í byrjun janúar. Í byrjun nóvember fara fram hér á landi fyrstu leikir landsliðsins undir stjórn Snorra Steins Guðjónssonar og Arnórs Atlasonar þegar frændur okkar frá Færeyjum koma í heimsókn og leika tvívegis. Færeyingar, sem er með skemmtilegt og ört vaxandi lið, taka einnig þátt í EM í Þýskalandi í janúar.

Leikir liðsins í riðlakeppni EM:
12. janúar: Ísland – Serbía.
14. janúar: Ísland – Svartfjallaland.
16. janúar: Ísland – Ungverjaland.

Áhorfendur eiga eftir að fjölmenna á landsleikina í nóvember hér heima og síðan á EM í janúar. Mynd/Hafliði Breiðfjörð

Riðlaskipting og leikstaðir á EM:
A-riðill: (Düsseldorf/Berlín): Frakkland, Þýskaland, Norður Makedónía, Sviss.
B-riðill: (Mannheim): Spánn, Austurríki, Króatía, Rúmenía.
C-riðill: (München): Ísland, Ungverjaland, Serbía, Svartfjallaland.
D-riðill: (Berlín): Noregur, Slóvenía, Pólland, Færeyjar.
E-riðill: (Mannheim): Svíþjóð, Holland, Bosnía-Hersegóvína, Georgía.
F-riðill: (München): Danmörk, Portúgal, Tékkland, Grikkland.

Millriðlakeppnin fer fram í Lanxess-Arena í Köln (A, B, C-riðlar) og Barclays Arena í Hamborg (D, E, F-riðlar). Endasprettur EM verður á dúknum í Lanxess-Arena í Köln.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -