„Samkvæmt mínum heimildum eru Haukar að gera sitt allra besta til þess að finna sér nýjan aðstoðarþjálfara með Ásgeiri,“ segir Sérfræðingurinn, Arnar Daði, í nýjasta þætti Handkastsins er fór í loftið í gær.
„Vignir var ekki með í gær og hann var ekki veikur. Vignir er ekki „all inn“ í þessu,“ segir Arnar Daði ennfremur um Vigni Svavarsson sem starfað hefur með Ásgeiri Erni Hallgrímssyni þjálfara Hauka síðan hann tók við stjórnvölunum í byrjun nóvember á síðasta ári.
Frammistaða Hauka í þremur fyrstu leikjunum í Olísdeildinni er mjög ýtarlega til umræðu í nýjasta Handkastinu. Þykir Arnari Daða, Styrmi og Tedda Ponsa sem Haukaliðið hjakki í sama farinu og það gerði í deildarkeppninni á síðasta tímabili. „Ég varð fyrir vonbrigðum með Haukaliðið gegn ÍBV, það var flatt og dapurt,“ sagði Arnar Daði.
Umræðan um Haukaliðið hefst eftir rúmlega 15 mínútur í þættinum og stendur tæpitungulaust yfir í nokkrar mínútur.
Í nýjasta þætti Handkastsins er einnig mikið rætt um dómaramál og farið ofan í ummæli sem Einar Jónsson þjálfari Fram og Þórir Ólafsson þjálfari Selfoss létu sér um munn fara að leikjum 3. umferðar loknum.