- Auglýsing -
- Gummersbach vann Stuttgart, 31:29, í Porsche-Arena í Stuttgart í gærkvöld í viðureign liðanna í sjöttu umferð þýsku 1. deildarinnar í handknattleik í gærkvöld. Elliði Snær Viðarsson skoraði tvö mörk fyrir Gummersbach sem lyftist upp í 12. sæti deildarinnar með þessum sigri. Liðið hefur fimm stig. Stuttgart er í þriðja neðsta sæti með tvö stig.
- Bertus Servaas hefur látið af starfi forseta pólska meistaraliðsins Industria Kielce eftir að hafa staðið í stafni í 21 ár. Servaas hefur stýrt félaginu í gegnum súrt og sætt þar sem sigurinn í Meistaradeild Evrópu 2016 stendur vafalaust upp úr. Í kjölfar þess að nýir aðilar komu að rekstri Industria Kielce á dögunum lét Servaas, sem er Hollendingur, af störfum og hætti öllum afskiptum af félaginu um leið.
- Síðasta ár var afar krefjandi í rekstri Kielce en það var nærri gjaldþrota snemma á þessu ár eftir að öflugasti bakhjarl þess hætti stuðningi fyrirvaralítið í kjölfar mikils tekjutaps vegna stríðsins í Úkraínu. Reyndi mjög á Servaas og samstarfsfólk sem tókst að sigla félaginu á milli skers og báru og koma því í hendur nýrra fjárfesta.
- Sabine Bothe fyrrverandi landsliðsmarkvörður Þýskalands í handknattleik varð bráðkvödd á heimili sínu á síðasta fimmtudag, 63 ára gömul. Bothe lék 237 leiki fyrir þýska landsliðið og var aðalmarkvörður þess þegar Þjóðverjar urðu heimsmeistarar árið 1993.
- Serbneski handknattleiksmaðurinn Petar Nenadić hefur samið við Al Khaleej í Sádi Arabíu til næstu tveggja ára. Hann verður gjaldgengur með liðinu á heimsmeistaramóti félagsliða sem fram fer í Sádi Arabíu í fyrri hluta nóvember. Nenadić var síðast með PSG en samningur hans við félagið rann út um mitt þetta ár.
- Topplið þýsku 1. deildarinnar í handknattleik karla, Füchse Berlin, varð fyrir áfalli á laugardagin þegar landsliðsmaðurinn Fabian Wiede meiddist ökkla. Meiðslin eru alvarleg og ósennilegt er að Wiede leiki oftar með Berlínarliðinu á þessu ári. Þá getur þátttaka hans með þýska landsliðinu á EM í janúar einnig verið í hættu.
- Auglýsing -