Viktor Gísli Hallgrímsson landsliðsmarkvörður og samherjar hans í Nantes töpuðu naumlega fyrir meisturum PSG í dag, 35:32, í frönsku 1. deildinni í handknattleik. Leikmenn PSG náðu að stinga sér framúr á endalínunni, ef svo má segja, með því að skora þrjú síðustu mörk leiksins. Svekkjandi tap hjá Nantes sem var sterkara verulegan hluta leiktímans.
Nantes var fimm mörkum yfir að loknum fyrri hálfleik, 19:14, en tókst ekki að halda forskotinu í síðari hálfleik á erfiðum útivelli gegn afar sterkum andstæðingi.
Viktor Gísli Hallgrímsson stóð meirihluta leiktímans í marki Nantes og varði 11 skot, 32,3%. Ivan Pesic samherji Viktors í markinu varði sjö skot, 36,8%.
Kamil Syprzak og Dominik Mathe skoruðu fimm mörk hvor fyrir PSG. Théo Monar skoraði níu mörk í níu skotum fyrir Nantesliðið og var markahæstur. Aymeric Minne var næstur með fimm mörk.
Nantes er í fimmta sæti frönsku 1. deildarinnar með sjö stig að loknum þremur leikjum, þremur á eftir Montpellier, PSG og Nimes.
Stöðuna í frönsku 1. deildinni og fleiri deildum Evrópu er að finna hér.