Það fóru þrír leikir í 16-liða úrslitum Meistaradeildar kvenna fram í dag en þetta voru fyrri viðureignir liðanna. Slóvenska liðið Krim kom heldur betur á óvart á heimavelli þegar það tók á móti rússneska liðinu CSKA. Þær rússnesku voru fyrirfram taldar mun sigurstranglegri enda hafði þeim gengið mun betur en Krim í riðlakeppninni.
Leikmenn Krim voru hins vegar á allt annari skoðun og byrjuðu leikinn af miklum krafti og komust í 11-6 eftir tuttugu mínútna leik en rússneska liðið náði þó að klóra aðeins í bakkann áður en flautað var til hálfleiks og staðan 12-11 í hálfleik. Ekkert gekk í sóknarleik CSKA í seinni hálfeik og skoraði liðið aðeins þrjú mörk á fyrstu 20 mínútum seinni hálfleiks. Það var eitthvað sem slóvenska liðið nýtti sér og náði sex marka forystu, 20-14. Fór svo að lokum að Krim vann með fimm marka mun, 25-20.
Munurinn á liðunum í þessum leik lá fyrst og fremst í markvörslunni en Jovana Risovic markvörður Krim átti skínandi leik þar sem hún varði 26 skot á meðan markmenn CSKA vörðu 16 skot. Það er ljóst að CSKA þarf að ná mun betri frammistöðu í seinni leiknum ætli það sér að komast áfram í 8-liða úrslit.
Í Rúmeníu áttust við erkifjendurnir Valcea og CSM Búkaresti þar sem að Búkaresti liðið fór með öruggan sigur 33-24. Liðin skiptust fjórum sinnum á að vera með forystuna í fyrri hálfleik en Cristina Neagu sá til þess að CSM var með eins marks forystu í hálfleik 13-12. Í seinni hálfleik var líkt og aðeins eitt lið væri inná vellinum. Um miðjan hálfleikinn var CSM komið með fimm marka forystu, 20-15. Eftir það var aldrei spurning hvoru meginn sigurinn lenti. Það var greinilegt að leikmenn CSM vildu sýna að þeir væru lið númer eitt í Rúmeníu og mættu virkilega ákveðnir til leiks. Sóknarleikur liðsins einstaklega góður og skotnýting var 73%. Það verður að teljast ólíklegt að Valcea nái að snúa þessari stöðu sér í vil. Til þess þarf liðið að vinna með tíu marka mun um næstu helgi.
Lokaleikur dagsins fór svo fram í Króatíu þegar að Podravka tók á móti Rostov-Don frá Rússlandi. Rússneska liðið var mun sterkara og vann með níu marka mun, 29-20.
Heimaliðið byrjaði leikinn betur og komst í 3-2 eftir sjö mínútna leik en eftir það tóku þær rússnesku öll völdin á vellinum og voru með sjö marka forystu í hálfleik, 17-10. Einstefnan hélt áfram í seinni hálfleik og vann Rostov, eins og áður segir, með níu marka mun og þar með komið með annan fótinn í átta liða úrslit.
Úrslit dagsins:
Krim 25-20 CSKA (12-11)
Mörk Krim: Samara Da Silva 8, Oceane Sercien 6, Natasa Ljepoja 5, Matea Pletikosic 3, Valentina Klemencic 1, Tija Gomilar 1.
Varin skot: Jovana Risovic 26
Mörk CSKA: Polina Gorshkova 4, Olga Gorshenina 3, Ekaterina Ilina 3, Marina Sudakova 2, Natalia Chigirinova 2, Sara Ristovska 2, Yuliia Markova 1, Kathrine Heindahl 1, Antonina Skorobogatchenko 1, Anastasiia Illarionova 1.
Varin skot: Chana Masson 12, Anna Sedoykina 4.
Valcea 24-33 CSM Búkaresti (12-13)
Mörk Valcea: Kristina Liscevic 7, Elena Florica 5, Mireya Gonzalez 4, Iryna Glibko 3, Marta Lopez 2, Maren Aardahl 1, Asma Elghaoui 1, Evgenija Minevskaja 1.
Varin skot: Daciana Hosu 6, Marta Batinovic 1.
Mörk CSM: Cristina Neagu 13, Barbara Lazovic 7, Carmen Martin 4, Siraba Dembele 4, Laura Moisa 2, Dragana Cvijic 1, Elizabeth Omoregie 1, Crina Pintea 1.
Varin skot: Jelena Grubisic 16.
Podravka 20-29 Rostov-Don (10-17)
Mörk Podravka: Dejana Milosavljevic 6, Dijana Mugosa 4, Lea Franusic 4, Ana Turk 2, Nikolina Zadravec 1, Aneja Beganovic 1, Dragica Dzono 1, Azenaide Carlos 1.
Varin skot: Yuliya Dumanska 14.
Mörk Rostov: Iuliia Managarova 5, Polina Kuznetsova 5, Anna Vyakhireva 4, Anna Sen 3, Ksenia Makeeva 3, Anna Lagerquist 2, Vladlena Bobrovnikova 2, Grace Zaadi 1.
Varin skot: Galina Gabisova 9, Viktoriia Kalinia 6.