„Mér fannst við alls ekki sýna það í fyrri hálfleik að við værum að leika við Íslandsmeistarana. Ég minnti því strákana á það í hálfleik að það væri ekki margir mánuðir síðan að þeir hefðu slegið okkur út, 3:0. Mér fannst við vera með þá í fyrri hálfleik þótt ekki gengi allt upp hjá okkur. Sama má segja um varnarleikinn, herslumuninn vantaði hjá okkur. Allt annað var upp á teningnum hjá okkur í síðari hálfleik. Þá gáfum við strax tóninn með að stela boltanum hvað eftir annað í vörninni,“ sagði Aron Pálmarsson í samtali við handbolta.is gærkvöld eftir átta marka sigur FH-inga á ÍBV, 35:27, í áttundu umferð Olísdeildar karla í handknattleik í Kaplakrika.
„Við gerðum ekki neinar taktískar breytingar á milli hálfleika, hvorki í vörn né sókn. Aðallega var vinnslan meiri hjá okkur í síðari hálfleik,“ sagði Aron ennfremur en staðan var jöfn eftir fyrri hálfleik, 14:14. FH vann síðari hálfleik, 21:13, og hafði þó nokkra yfirburði.
Þessir kaflar verða að vera lengri
„Við viljum vera við eða á toppnum í deildinni en til þess að svo verði verðum við að leika eins og við gerðum í síðari hálfleik í dag. Þessir kaflar verða að vera lengri. Ég er viss um að við verðum bara betri eftir því sem á keppnistímabilið líður,“ sagði Aron ennfremur en hann fór á kostum í leiknum í gær, skoraði níu mörk í 10 skotum og átti a.m.k. sex sköpuð marktækifæri.
Líður stöðugt betur
„Ég er jafnt og þétt að venjast nýjum aðstæðum. Ég átti ekki von á því að mæta til leiks og rústa öllu. Mér líður stöðugt betur, jafnt andlega sem líkamlega. Mér finnst mjög gaman að leika í deildinni hér heima,“ sagði Aron sem mætir á landsliðsæfingu á mánudaginn en framundan eru tveir vináttuleikir við Færeyinga á föstudaginn og á laugardaginn eftir viku í Laugardalshöll.
Tilbúinn í landsliðið
Aron segist vera fullur tilhlökkunar fyrir komandi verkefnum með landsliðinu. Hann hafi lagt á sig mikla vinnu í sumar með það að markmiði að verða í sem bestu standi til að mæta því álagi sem tímabilinu fylgir, jafnt með FH og íslenska landsliðinu sem tekur þátt í EM í janúar.
Stöðug vinna
„Ég vinn í því alla daga að halda mér í sem bestu formi. Ég hef meiri tíma til að hugsa um sjálfan mig eftir að ég kem heim og hef þar af leiðandi engar áhyggjur af því að mæta auknu álagi sem fylgir landsliðinu samhliða verkefnum með FH, bæði í deildinni og í Evrópukeppninni þar sem við erum ennþá með,“ sagði Aron Pálmarsson leikmaður FH í samtali við handbolta.is í gærkvöld.
Tengt efni:
FH tók ÍBV í kennslustund í síðari hálfleik
Frábær vörn lagði grunninn að sigrinum
Staðan og næstu leikir í Olísdeildunum.