FH stendur vel að vígi eftir níu marka sigur á belgíska liðinu Sezoens Achilles Bocholt, 35:26, í fyrri viðureign liðanna í32-liða úrslitum Evrópubikarkeppni karla í handknattleik í Kaplakrika í dag. Síðari viðureignin fer fram í Belgíu eftir viku og þarf mikið að ganga á svo FH komist ekki í 16-liða úrslit keppninnar.
FH-ingar réðu lögum og lofum í leiknum frá upphafi til enda. Að loknum fyrri hálfleik var munurinn fimm mörk, 17:12.
Mikill hraði var í leiknum á upphafsmínútunum og til að mynda voru skoruðu fjögur mörk á fyrstu 62 sekúndunum eftir að dómararnir gáfu mönnum merki um að hefja leik.
(Jói Long var að vanda í Kaplakrika. Að sjálfsögðu var myndavélin með í för).
FH-ingar náðu fljótt góðum tökum á leiknum. Sóknarleikurinn gekk vel með Jóhannes Berg Andrason í aðalhlutverki. Daníel Freyr Andrésson varði allt hvað af tók. Upp úr miðjum hálfleiknum var staðan orðinn, 12:6, fyrir FH.
Margt benti til að FH-ingar væru að stinga af. Sú varð ekki raunin. Við tóku níu mínútur án marks hjá FH-ingum. Fljótaskrift var á nokkrum sóknum auk þess sem markvörður Bocholt, Clem Leroy, hrökk í stuð. Munurinn var kominn niður í þrjú mörk loksins þegar Einar Bragi Aðalsteinn hjó á hnútinn fyrir FH-inga, 13:9. Hafnfirðingar juku forskot sitt fyrir hálfleik, 17:12.
Belgarnir reyndu hvað þeir gátu í síðari hálfleik en réðu ekki við öfluga FH-inga, ekki síst Daníel Frey markvörð sem átti stórleik og Einar Braga Aðalsteinnsson sem léku leikmenn Bocholt oft grátt. Tíu mínútum fyrir leikslok var FH komið með níu marka forskot. Belgar náðu að klóra í bakkann áður en FH átti góðan sprett í lokin og tryggði sér gott veganesti til Belgíufarar.
Aron Pálmarsson lék ekki með FH í dag.
Mörk FH: Einar Bragi Aðalsteinsson 11, Jóhannes Berg Andrason 7, Jakob Martin Ásgeirsson 5, Jón Bjarni Ólafsson 4, Einar Örn Sindrason 2, Birgir Már Birgisson 2, Leonharð Þorgeir Harðarson 1, Garðar Ingi Sindrason 1, Símon Michael Guðjónsson 1.
Varin skot: Daníel Freyr Andrésson 20, 45%.
Mörk Becholt: Tim Claesesens 6, Jeroen de Beuele 4, Aleksa Kljajic 4, Thomas Driesen 3, Serge Spooren 2, Ilyas D’Hanis 2, Tristan Tielen 1, Wout Winters 1, Joren Lamers 1, Ruben Roelants 1, Pieter Strauven 1.
Varin skot: Clem Leroy 11, 24%.
Handbolti.is var í Kaplakrika og fylgdist með leiknum í textalýsingu hér fyrir neðan.