- Auglýsing -
- Svavar Ólafur Pétursson og Sigurður Hjörtur Þrastarson dæma viðureign ABC de Braga og króatíska liðsins RK Nexe í sjöttu og síðustu umferð Evrópudeildarinnar á þriðjudaginn í næstu viku. Leikurinn fer fram í Braga í Portúgal. RK Nexe og Skjern eru örugg um sæti í 16-liða úrslitum úr riðlinum. Þetta verður þriðji leikurinn sem Svavar og Sigurður dæma í Evrópudeild karla á leiktíðinni.
- Hinir umdeildu dómarar frá Norður Makedóníu, Slav Nikolov og Gjorgji Nachevski, dæma leik HC Zagreb og Pick Szeged í Meistarardeild karla í handknattleik. Þeir fá ennþá eitt og eitt verkefni þótt bönd hafi borist að þeim í málum tengdu veðmálabraski. Þeir dæma t.d. í lokakeppni EM karla í Þýskalandi í janúar. Dragan Nachevski, faðir Gjorgji, hefur verið settur út af sakramenntinu eftir að grunur féll á að hann hefði óhreint mjöl í pokahorninu sem formaður dómaranefndar Handknattleikssambands Evrópu.
- Íslenskir dómarar og eftirlitsmenn verða ekki í eldlínunni í Meistaradeild karla í kvöld eða á morgun.
- Fargi var eflaust létt af Alfreði Gíslasyni þjálfara þýska karlalandsliðsins í gær þegar ljóst var að Patrick Groetzki getur gefið kost á sér í þýska landsliðið sem verður gestgjafi Evrópumóts karla í handknattleik í janúar. Groetzki hefur verið frá keppni vegna meiðsla um skeið. Hann sagði frá því í gær að nú væri hann kominn á beinu brautina og gæti leikið með landsliðinu á heimavelli í janúar.
- Áhugasamir geta þegar tryggt sér aðgöngumiða á leiki Evrópumóts kvenna í handknattleik sem fram fer í Austurríki, Sviss og Ungverjalandi eftir ár. Miðasala hófst í gær en nánari upplýsingar er að finna á https://www.eurohandball.com/all-tickets/. Góðar vonir standa til þess að íslenska landsliðið verði á meðal þátttakenda. Um verður að ræða fyrsta Evrópumót kvenna í handknattleik með 24 þátttökuliðum.
- Þótt ekki verði flautað til leiks á HM kvenna í handknattleik fyrr en í dag þá hafa dómarar ekki slegið slöku við síðustu daga. Þeir hafa búið sig undir mótið síðan á laugardaginn. 46 dómarar og 27 eftirlitsmenn hafa ráðið ráðum sínum á Scandic CPH Strandpark skammt frá Kastrup í Kaupmannahöfn. Þeir mæta galvaskir til leiks með spjöld sín og flautur vongóðir um að fátt fari framhjá þeim.
- Ein fremsta handknattleikskona heims og markahæsti leikmaður Evrópumóta í handknattleik frá upphafi, Cristina Neagu, er meidd á hné og verður ekki með rúmenska landsliðinu í upphafsleik landsliðsins á föstudaginn gegn Chile. Vonir standa til að Neagu verði með þegar líður á mótið. Rúmenska liðið verður skipað 19 leikmönnum við komuna til Herning í Danmörku í dag.
- Auglýsing -