- Auglýsing -
- Íslendingatríóið hjá þýska liðinu GWD Minden vann kærkominn sigur í gær á Eulen Ludwigshafen, 31:29, á heimavelli í viðureign liðanna í 2. deild. Gestirnir frá Ludwigshafen voru um skeið með frumkvæði í leiknum en varð ekki kápa úr klæðinu. Bjarni Ófeigur Valdimarsson skoraði þrjú af mörkum GWD Minden en skotnýting hans var ekki góð. Aðalsteinn Eyjólfsson þjálfar GWD Minden. Sveinn Jóhannsson skoraði ekki mark að þessu sinni.
- GWD Minden hefur ekki vegnað sem best á leiktíðinni og m.a. hafa meiðsli sett talsvert strik í reikninginn. Liðið er í 14. sæti en nánar er hægt að sjá stöðuna í deildinni hér.
- Hákon Daði Styrmisson skoraði eitt mark fyrir Eintracht Hagen þegar liðið tapaði fyrir Tusem Essen, 21:18, í Essen í gær en liðin eru í 2. deild þýska handknattleiksins. Hagen er í 11. sæti deildarinnar.
- Harpa Rut Jónsdóttir var ekki á meðal markaskorara GC Amicitia Zürich í jafntefli á heimavelli við Yellow Winterthur, 26:26, í svissnesku A-deildinni í gær en leikið er af krafti í deildinni þótt heimsmeistaramót kvenna í handknattleik standi yfir. Landslið Sviss er ekki með á HM og fáir landsliðsmenn annarra landa hjá félagsliðum. GC Amicitia Zürich er i fimmta sæti af átta liðum úrvalsdeildarinnar.
- Bjarki Finnbogason skoraði ekki mark fyrir Anderstorps í eins marks sigri á heimavelli, 32:31, gegn IFK Karlskrona í næst efstu deild sænska handknattleiksins í gær. Anderstorps situr í sjöunda sæti af 14 liðum deildarinnar.
- Auglýsing -