„Paragvæ er með lið af allt öðrum klassa en grænlenska liðið og búum okkur þar af leiðandi undir hörkuleik,“ sagði Andrea Jacobsen landsliðskona í handknattleik við handbolta.is í gær um næsta leik íslenska landsliðsins á heimsmeistaramótinu í handknattleik, þ.e. í keppninni um forsetabikarinn í Frederikshavn.
„Við megum aldrei vanmeta andstæðinga okkar þótt þeir séu fyrirfram taldir vera veikari en við. Leikmenn landsliðs Paragvæ eru kvikar á fótunum og virðast vera flottar íþróttastelpur. Við verðum að vera vel einbeittar frá upphafi til þess að ná tökum á leiknum,“ sagði Andrea og bætti við að hugsanlega vantaði upp á úthald hjá leikmönnum Paragvæ sem gæti komið niður á þeim þegar á leikinn líður. Þess hafi orðið vart í viðureign Paragvæ við kínverska landsliðið í fyrradag.
Textalýsing úr Nord Arena
Viðureign Íslands og Paragvæ hefst klukkan 17 í dag. Þeir sem ekki eiga þess kost að fylgjast með sjónvarpsútsendingu RÚV eiga þess vonandi kost að fylgjast með textalýsingu handbolta.is úr Nord Arena. Handbolti.is fylgir íslenska landsliðinu frá upphafi til enda HM í gegnum súrt sem sætt.