Lárus Helgi Ólafsson markvörður Fram var ekki öfundsverður af hlutverki sínu fyrir aftan slaka vörn Fram í gær í sigurleiknum á KA, 42:38, í síðasta leik liðanna í Olísdeild karla á leiktíðinni.
„Ég var ekki sáttur við varnarleikinn í fyrri hálfleik. Þetta var fyrsti leikurinn eftir að Marko [Coric] fór frá okkur. Kannski ruglaði það okkur eitthvað í rýminu,“ sagði Lárus í samtali við Lúther Gestsson útsendara handbolta.is á leiknum í Úlfarsárdal.
„Heilt yfir erum við heppnir að vinna leikinn. Við getum þakkað sóknarleiknum sigurinn því varnarleikurinn var mjög slakur og markvarslan lítil sem engin. Þetta var virkilega erfitt gegn mjög öflugu liði KA,“ sagði Lárus Helgi sem stóð fyrri hálfleikinn í marki Fram og fékk á sig 19 mörk.
Lárus Helgi sagði það hafa loðað við Framliðið upp á síðkastið að fyrri hálfleikurinn hefur verið slakari en sá síðari.
Góður tími til að fara yfir málin
„Við þurfum að setjast niður og fara yfir hvað við þurfum að laga á þeim tíma sem framundan er. Ekki verður leikið aftur í deildinni fyrr en eftir nokkrar vikur og þess vegna gefst góður tími í að laga það sem laga þarf hjá okkur,“ sagði Lárus Helgi en Framliðið situr í fimmta sæti Olísdeildar með 17 stig eins og Afturelding sem á leik til góða gegn Val annað kvöld.
15 ára samningur á borðinu!
„Sóknarleikur okkar er og hefur verið frábær. Ég held að allir séu samála um það. Hinsvegar hefur okkur skort upp á í varnarleik og markvörslu. Ég er viss um að við vinnum í þeim atriðum saman á næstu vikum,“ sagði Lárus Helgi Ólafsson og bætti við í gamni að núna eftir að bróðir hans væri orðinn framkvæmdastjóri félagsins liggi 15 ára samningur á borðinu. Hann væri þar af leiðandi ekkert á þeim buxunum að hætta!
Tengt efni:
Sóknarleikur okkar var stórkostlegur
Boðið var upp á markasúpu í Úlfarsárdal
Staðan og næstu leikur í Olísdeildum