Rúnar Sigtryggsson fyrrverandi landsliðsmaður og núverandi þjálfari Leipzig hitaði upp fyrir Evrópumótið í símaviðtali í nýjasta þætti Handkastsins. Þar fór hann yfir línumannastöðuna hjá íslenska landsliðinu sem hefur oft og tíðum verið sögð veikasta staðan í liðinu. Rúnar er hinsvegar á öðru máli í dag í samtali við Handkastið.
Munu leika öðruvísi en áður
„Leikstíllinn sem við erum væntanlega að fara spila, hann mun fela kannski nokkra veikleika hjá okkur. Ég held að það sé alveg klárt að við séum ekki með sömu sóknarlínumenn og Ungverjar eða Serbía. En með fljótum leik og mikilli hreyfingu og góðri boltafærslu þá myndi ég ekkert vera að mála skrattann á vegginn. Við erum bara að fara spila öðruvísi bolta sem hentar leikmönnunum okkar og ég er eiginlega fullur bjartsýni,“ segir Rúnar í nýjasta þætti Handkastsins.
Hentar Elliða vel
„Gummersbach er að spila þennan hraða sóknarleik og Elliði smell passar í það. Hann er snöggur að útfæra hraða miðju og er mjög hreyfanlegur í sóknarleik Gummersbach. Þeir ná að láta boltann fljóta mjög vel. Það hentar Elliða,“ segir Rúnar og bætir við Arnar Freyr hafi sótt í sig veðrið eftir því sem tækifærum hans með Melsungen hafi fjölgað.
Besti línumaður Melsungen
„Eftir erfiða byrjun hjá Arnari Frey í Melsungen þar sem þjálfarinn var kannski ekki að nota hann, þá hefur Arnar rifið sig upp og er þeirra besti línumaður í dag,“ segir Rúnar Sigtryggsson í samtali við Handkastið.
Viðtalið við Rúnar er hægt að hlusta á í heild sinni hér fyrir neðan.
EM í handknattleik hefst 10. janúar en fyrsti leikur íslenska landsliðsins verður 12. janúar gegn Serbíu.