Ómar Ingi Magnússon átti stórleik með SC Magdeburg í kvöld en hann átti þátt í meira en helming marka liðsins þegar það vann Göppingen, 31:27, á heimavelli í átjándu og síðustu umferð þýsku 1. deildarinnar. Ómar Ingi skoraði 12 mörk og gaf fjórar stoðsendingar.
Janus Daði Smárason skoraði tvö mörk og gaf sex stoðsendingar. Til viðbótar skoraði Gísli Þorgeir Kristjánsson eitt mark og átti eina stoðsendingu.
Íslendingarnir þrír voru þar með á bak við 26 af 31 marki Magdeburg að þessu sinni. Því má segja kinnroðalaust að piltarnir hafi verið allt í öllu. Ómar Ingi skoraði átta af 12 mörkum sínum úr vítaköstum.
Magdeburg var sjö mörkum yfir, 17:10, og var með 10 marka forskot, 20:10, snemma í síðari hálfleik þegar slakað var á klónni.
Eftir sem áður er Magdeburg í efsta sæti deildarinnar.
Teitur lét einnig til sín taka
Fyrrverandi sveitingi Ómars Inga og Janusar Daða, Teitur Örn Einarsson, lét einnig til sín taka í kvöld þegar Flensburg lagði Balingen-Weilstetten, 34:32, í Balingen í suður Þýskalandi. Teitur Örn skoraði fjögur mörk og gaf eina stoðsendingu auk þess að láta til sín taka í vörninni enda maður ekki einhamur.
Torsóttur sigur
Sigurinn var torsóttur fyrir liðsmenn Flensburg. Balingen-Weilstetten veittu öfluga mótspyrnu og var um tíma með yfirhöndina snemma í síðari hálfleik.
Oddur Gretarsson skorað eitt mark úr vítakasti fyrir Balingen-Weilstetten og átti tvær stoðsendingar. Daníel Þór Ingason skoraði ekki mark að þessu sinni.
Emil Jakobsen skoraði 12 mörk fyrir Flensburg. Nikola Grahovac var markahæstur hjá Balingen með sex mörk en liðið rekur áfram lestina í deildinni meðan Flensburg er í þriðja sæti.
Staðan: