Karlalandsliðið í handknattleik er áfram eitt allra vinsælasta íþróttalið landsins og laðar ekki aðeins Íslendinga með sér á völlinn þegar keppt er hér á landi og utanlands heldur lokkar það almenning að sjónvarpstækjunum í vaxandi mæli. Á vef RÚV segir að fimmta árið í röð voru leikir karlalandsliðsins í handknattleik vinsælasta sjónvarpsefnið í flokki íþróttaútsendinga árið 2023.
Á lista yfir 20 vinsælustu beinu útsendingum frá landsleikjum á árinu 2023 eru leikir karlalandsliðsins í handknattleik í 10 af 12 efstu sætunum.
Flestir horfðu á viðureign Íslands og Ungverjalands í riðlakeppni HM sem spilaður var 14. janúar 2023. „Hann fékk 51,6% áhorf og 57,7% uppsafnað áhorf. Uppsafnað áhorf þýðir þá sem horfðu í a.m.k. fimm mínútur samfleytt,“ segir í frétt RÚV.
Teknir eru allir leikir sem sýndir voru á RÚV, RÚV 2, Stöð 2 og Stöð 2 Sport. Síminn og Viaplay eru hins vegar ekki inni í rafrænum ljósvakamælingum Gallup, segir á vef RÚV þar sem hægt er að sjá listann í heild sinni.
Ekki aðeins hélt karlalandsliðið miklum vinsældum sínum á milli ára heldur virtist áhugi fyrir útsendingum frá leikjum liðsins vaxa frá árinu 2022 og enn meira þegar litið er aftur til ársins 2021.
Til samanburðar má nefna að vinsælasti leikur landsliðsins árið 2022 var eftirminnileg viðureign við franska landsliðið á Evrópumótinu það ár. Sá leikur fékk fékk 45,8% áhorf.
Árið 2021 fékk viðureign Íslands og Portúgal á HM mest áhorf, 34,4%. Þeir leikir karlalandsliðsins sem fengu mest áhorf 2019 og 2020 voru með frá tæpum 45% og upp í nærri 48 af hundraði meðaláhorf.
Sjá nánar hér í frétt RÚV.
EM í handknattleik karla hefst 10. janúar í Düsseldorf í Þýskalandi og stendur til 28. janúar. Leikir Íslands í C-riðli EM í München: 12.jan.: Ísland – Serbía, kl. 17. 14.jan.: Ísland – Svartfj. land, kl. 17. 16.jan.: Ísland – Ungv.land, kl. 19.30.