„Það er enginn glaður eða ánægður með frammistöðuna. Allir gera sér grein fyrir að við eigum að geta gert mikið betur. Að því leytinu til er þetta þungt hjá okkur,“ sagði Snorri Steinn Guðjónsson landsliðsþjálfari karla í handknattleik í samtali við handbolta.is í morgun á fundi landsliðsins með fjölmiðlum á hóteli þess í miðborg Kölnar.
„Stórmót er ákveðið skrímsli. Leiðirnir eru ekki nema tvær þegar lið lenda í mótlæti. Önnur er að leggjast niður, hin er að standa í fæturna. Meðan það er glæta þá höldum við áfram, gefumst ekki upp. Ég er manna fyrstur til að viðurkenna að afraksturinn til þessa hefur ekki verið góður,“ sagði Snorri Steinn og bætti við.
Uppleggið ekki rétt
„Uppleggið hjá mér fyrir leikinn í gær var greinilega ekki nógu gott. Þær eru hluti af ákvörðunum sem ég tek. Með þeim verð ég að standa og falla. Meðan ennþá standa fyrir dyrum leikir þá er ekkert annað í stöðunni en að halda áfram. Ég trúi á liðið og leikmennina. Ég veit hvað þeir geta enda hef ég séð það margoft. Mér hefur bara ekki tekist að kalla það fram, það svíður,“ sagði Snorri Steinn ennfremur.
Heldur áfram að leita
Skýringanna verður leitað að sögn Snorra Steins en þær liggja dýpra en svo að hægt sér að töfra fram lausnir í einum grænum kvelli. „Ef einhver er með töfralausnina þá þigg ég hana. Ég hef allaveganna ekki fundið hana en mun halda áfram að leita.“
Talsvert lengri hljóðritaða útgáfu af viðtalinu er að finna hér fyrir neðan.