„Þetta var geggjað, alveg ótrúlega flott,“ sagði Elliði Snær Viðarsson landsliðsmaður í handknattleik í sjöunda himni þegar handbolti.is hitti hann eftir sigurinn á Króötum, 35:30, í milliriðlakeppni Evrópumótsins í handknattleik karla í Lanxess Arena í dag.
„Sérstaklega er ég ánægður með hversu öflugir við komum inn síðari hálfleikinn,“ sagði Elliði en íslenska liðið skoraði fimm af fyrstu sex mörkum síðari hálfleiks.
„Þegar okkur tókst að berja okkur í gang, þá var ekki aftur snúið. Króatar eru eins og kakkalakki sem deyr aldrei. Þeir koma alltaf til baka. Þótt þeir væru tapa með fjórum þá héldu þeir áfram allt til loka.“
„Draumurinn lifir. Það skiptir öllu máli. Við höfum verið ótrúlega heppnir með úrslit annarra liða í mótinu. Við skulduðum svo sannarlega alvöru leik og náðum því svo sannarlega í dag,“ sagði Elliði Snær Viðarsson.
Hljóðritað viðtal við Elliða Snæ er að finna hér fyrir neðan.
Eins og fuglinn Fönix reis landsliðið upp á ögurstund
EM 2024 – leikjadagskrá, úrslit, staðan – milliriðlar