„Við höfum lent í því áður að veikindi hafi herjað á hópinn á stórmóti, minnugir erum við covidmótsins, EM fyrir tveimur árum. Ég held að við höfum spilað okkar besta handbolta þegar vantaði sem flesta í landsliðið,“ sagði Aron Pálmarsson fyrirliði íslenska landsliðsins í handknattleik léttur í bragði spurður út í undirbúninginn fyrir leikinn mikilvæga við Austurríki í milliriðlakeppni Evrópumótsins í handknattleik karla sem fer fram á morgun.
Erum ekki einir
Veikindi og fleiri áföll hafa riðið yfir íslenska landsliðið síðustu sólarhringa og þegar handbolta.is hitti Aron voru fjórir leikmenn veikir, einn meiddur og annar kominn í leikbann.
„Mér skilst reyndar að við séum ekki einir um að vera með veika eða lasna menn innan liðsins. Þetta er bara eitthvað sem því miður getur komið upp og er mjög leiðinlegt, ekki síst fyrir þá leikmenn sem veikjast eða meiðast.
Við hinir getum ekkert velt okkur upp úr þessu. Svona gengur þetta fyrir sig og við fáum engu um það breytt. Okkar er að snúa bökum saman,“ sagði Aron ennfremur.
Aðeins eitt tap
Austurríkismenn hafa komið mörgum á óvart á EM og ekki tapað nema einum leik. Aron sagðist ekki hafa átt von á því þegar Ísland og Austurríki mættust í vináttuleikjum fyrir Evrópumótið að austurríska liðið yrði spútniklið mótsins
Agaður leikur í vörn sem sókn
„Þeir komu pressulausir inn í mótið og hafa gaman að þessu. Þeir leika sinn leik mjög vel. Spila nær eingöngu sjö á sex í sókninni og treysta fyrir vikið á frekar fáa leikmenn. En það er að virka hjá þeim. Leikurinn þeirra er mjög agaður, hvort heldur í vörn sem sókn. Svo má ekki gleyma því að austurríska liðið er með eina af hæstu hlutfallsmarkvörslu í mótinu sem undirstrikar aftur og enn hversu mikilvægur þáttur markvarslan er,“ sagði Aron sem jafnframt varar við bjartsýni eftir sigurinn á Króötum.
Björninn er ekki unninn
„Við megum ekki halda að björninn sé unninn þótt við höfum unnið Króata. Það þarf að gera fleira heldur en að fara í búninginn og reima á sig skóna. Við þurfum að leggja á okkur mikla vinnu til þess að vinna og ná markmiðinu. Það er hinsvegar ákveðinn léttir að hafa unnið, fundið leiðina þótt hún sé krefjandi,“ sagði Aron Pálmarsson fyrirliði íslenska landsliðsins í handkanttleik í samtali við handbolta.is. í Köln í dag.