- Auglýsing -
- Elvar Ásgeirsson skoraði eitt mark fyrir Ribe-Esbjerg í tveggja marka sigri liðsins í heimsókn til botnliðs dönsku úrvalsdeildarinnar, Lemvig, 32:30, í dag. Ágúst Elí Björgvinsson lék ekki með Ribe-Esbjerg vegna meðsla. Ribe-Esbjerg er í fimmta sæti með 23 stig eftir 21 leik.
- Liðsmenn Fredericia HK sem Guðmundur Þórður Guðmundsson þjálfar töpuðu fyrir GOG, 37:31, á heimavelli í dönsku úrvalsdeildinni í dag. Einar Þorsteinn Ólafsson átti þrjár stoðsendingar fyrir Fredericia HK í leiknum. Fredericia HK er áfram í öðru sæti með 32 stig, fjórum stigum fyrir ofan Bjerringbro/Silkeborg. Aalborg er efst með 37 stig.
- Arnór Atlason tapaði á sínum gamla heimavelli í dag þegar hann kom með liðsmenn sína í TTH Holstebro í heimsókn til Aalborg Håndbold, 33:27, í 21. umferð dönsku úrvalsdeildarinnar, Holstebro er í 10. sæti af 14 liðum með 16 stig. Fimm umferðir eru eftir af deildarkeppninni.
- Haukur Þrastarson skoraði eitt mark fyrir Kielce þegar liðið vann Azoty-Puławy, 39:28, í pólsku úrvalsdeildinni í handknattleik í dag. Kielce er í öðru sæti deildarinnar með 57 stig eftir 20 leiki. Wisla Plock sem lagði Gwardia Opole, 40:21, er með fullt hús stig, 60 stig, í efsta sæti.
- BSV Sachsen Zwickau, lið Díönu Daggar Magnúsdóttur, vann tvö mikilvæg stig í botnbaráttu þýsku 1. deildarinnar í handknattleik í kvöld. Zwickau vann Solingen, 29:28, á heimavelli og náði aðeins að mjaka sér frá neðstu liðunum þremur, Bad Wildungen, Solingen og Neckarsulmer. Díana Dögg tók ekki þátt í leiknum en eins og lesendum handbolta.is er kunnugt þá handarbrotaði hún í leik fyrir hálfum mánuði.
- Berta Rut Harðardóttir skoraði tvö mörk fyrir lið sitt, Kristianstad HK, í jafntefli á heimavelli, 30:30, þegar Skövde kom í heimsókn en leikurinn var liður í 17. umferð sænsku úrvalsdeildarinnar. Kristianstad HK er í sjöunda sæti deildarinnar með 17 stig eftir leikina 17.
- Tryggvi Þórisson og samherjar í IK Sävehof gerðu jafntefli á heimavelli í dag við IF Hallby HK í sænsku úrvalsdeildinni í handknattleik, 30:30. Tryggvi var ekki á meðal þeirra sem skoruðu mörk IK Sävehof í leiknum. IK Sävehof er áfram með örugga forystu í deildinni, 32 stig að loknum 19 leikjum. Hammarby er fimm stigum á eftir og hefur auk þess leikið einum leik fleira.
- Bjarki Már Elísson skoraði ekki fyrir ungversku meistarana Telekom Veszprém þegar þeir unnu MOL-Tatabánya KC, 34:31, á heimavelli í dag. Frakkinn Hugo Descat sem leikur á móti Bjarka Má í vinstra horninu hjá Veszprém skoraði átta mörk og var markahæstur. Telekom Veszprém er efst sem fyrr með 30 stig eftir 15 leiki, sex stigum á undan Pick Szeged sem á leik til góða.
- Stöðuna í ungversku 1. deildinni og í fleiri evrópskum deildum handknattleiksins er að finna hér.
- Auglýsing -