„Við virtumst ekki mæta til leiks, værukærð var yfir mannskapnum. Allt var gert með hálfum huga, jafnt í vörn sem sókn þótt undirbúningurinn fyrir leikinn hafi verið góður,“ sagði Sigurgeir Jónsson, Sissi, þjálfari Stjörnunnar, í samtali við handbolta.is í dag eftir tíu marka tap á heimavelli, 30:20, fyrir Fram í Olísdeild kvenna í handknattleik. Eins og kom fram hjá Sissa þá voru leikmenn Stjörnunnar ekki með á nótunum í upphafi leiks og voru fyrir vikið 1:8 undir eftir 13 mínútur.
Misstum hausinn
„Ef maður er ekki fullkomlega með á nótunum þá er erfitt að stöðva lið eins og Fram,” sagði Sissi sem var bærilega sáttur við að leikmenn vöknuðu þó til lífsins og minnkuðu muninn niður í þrjú mörk fyrir hálfleik auk þess sem ekki var nema þriggja marka munur enn á liðunum eftir ríflega 10 mínútur í síðari hálfleik.
„Þegar forskot Fram var aftur komið upp í fimm eða sex mörk þegar á leið síðari hálfleikinn þá misstum við hausinn og tapið var alltof stórt,“ sagði Sissi ennfremur.
Horfum fram á veginn – forðumst umspil
„Við verðum að horfa fram á veginn og taka það út úr leiknum sem var gott. Framundan eru hörkuleikir. Nánast allt úrslitaleikir fyrir okkur í keppninni um að halda sjötta sætinu sem gefur þátttökurétt í úrslitakeppninni. Við viljum vera í úrslitakeppninni. Umfram allt viljum við forðast umspilið um sæti í Olísdeildinni. Liðin í Grill 66-deildinni geta verið skeinuhætt. Þess utan eigum við líka sæti í undanúrslitum bikar sem er flott viðbót við tímabilið,“ sagði Sigurgeir Jónsson þjálfari Stjörnunnar þegar handbolti.is hitti hann að máli í Mýrinni síðadegis.
Staðan og næstu leikir í Olísdeildum.