Martha Hermannsdóttir hefur tekið fram handboltaskóna og ákveðið að leika með KA/Þór í síðustu leikjum Olísdeildar. KA/Þór er í fallhættu á botni deildarinnar þegar fimm leikir eru eftir. Hún lék með KA/Þór gegn ÍR í Skógarseli í gærkvöld.
„Það eru tíu dagar síðan ég ákvað að taka slaginn á ný,“ sagði Martha við handbolta.is þegar hún gekk af leikvelli eftir að hafa staðið í stórræðum í vörn KA/Þórs auk þess að skora þrjú mörk.
„Við þurfum allar hendur á dekk á endasprettinum,“ sagði Martha ennfremur. Hún hefur ekki leikið með KA/Þór frá vorinu 2022. Um sumarið ákvað Martha að rifa handboltaseglin eftir langan og afar farsælan feril. Síðan hefur hún starfað fyrir KA og KA/Þór utan vallar en hefur nú einnig fært sig inn á leikvöllinn á nýjan og taka þátt í lífróðri fyrir tilverurétti KA/Þórs í Olísdeildinni.
Hulda Bryndís Tryggvadóttir lék sinn fyrsta leik með KA/Þór gegn ÍR í gær að loknu fæðingarorlofi. Hún varð fyrir því óláni að fá þungt högg á annað hnéð. Hulda Bryndís sagði í samtali við handbolta.is eftir leikinn í Skógarseli, heimavelli ÍR, að vonir hennar standi til að höggið dragi ekki dilk á eftir sér.
KA/Þór tekur á móti Stjörnunni á laugardaginn í 18. umferð Olísdeildar.
Staðan og næstu leikir í Olísdeildum.