- Auglýsing -
- Auglýsing -

Lífróður til loka deildarkeppninnar

Arna Valgerður Erlingsdóttirhvetur leikmenn sína til dáða. Mynd/Egill Bjarni Friðjónsson
- Auglýsing -

„Sú staðreynd að við héldum ÍR í 22 mörkum hefði átt að nægja okkur til þess að stela stigi eða tveimur úr leiknum en því miður varð það ekki raunin,“ sagði Arna Valgerður Erlingsdóttir þjálfari KA/Þórs í samtali við handbolta.is í Skógarseli í gærkvöld eftir fimm marka tap, KA/Þórs fyrir ÍR, 22:17, í 17. umferð Olísdeildar kvenna í handknattleik.

KA/Þór rekur þar með áfram lestina í deildinni þegar fimm leikir eru eftir. Þrátt fyrir slæma stöðu þá er ekki öll nótt úti um að liðið geti haldið sæti sínu í Olísdeildinni. Aðeins munar tveimur stigum á KA/Þór og Stjörnunni sem er í sjötta sæti og því þriðja neðsta.

Skotin arfaslök og beint á markið

„Í þessum leik voru skotin okkar arfaslök. Mörg hver fóru bara beint á markið,“ sagði Arna Valgerður spurð um sóknarleik KA/Þórs sem hún segir hafa verið höfuðverk liðsins allt keppnistímabilið. Víst er að svo var að sóknarleikurinnn var langt frá því að vera eins og best verður á kosið, að því er tíðindamanni handbolta.is virtist.

Sóknarleikurinn hefur verið vandamál

„Varnarleikurinn hefur ekki verið vandamál okkar í vetur heldur hefur sóknarleikurinn verið að drepa okkur og gert að verkum að á stundum höfum við ekki komist nægilega fljótt í vörnina. En þegar við komumst í vörn þá getum við vel leikið góða vörn auk þess að vera með hörkugóðan markvörð,“ sagði hin skelegga Arna Valgerður.

Hent í í rusl minninganna

KA/Þór beið afhroð í viðureign gegn Selfossi í átta liða úrslitum Poweradebikarsins á dögunum. Arna Valgerður sagði þá viðureign vera afgreidda innan hópsins.

„Við höfum sagt skilið við bikarleikinn í vikunni. Það var afhroð og langt frá þeirri frammistöðu sem við sýndum gegn Val á laugardaginn fyrir viku síðan. Við fórum vel yfir bikarleikinn á Selfoss og hentum honum svo í rusl minninganna. Þátttöku okkar í bikarkeppninni er lokið þetta árið. Framundan hjá okkur er að berjast fyrir lífi okkar í deildinni. Einbeiting okkar verður að vera á því atriði,“ sagði Arna Valgerður sem var ofarlega í huga hörkuleikur KA/Þórs fyrir viku þegar liðið náði að velgja Íslandsmeisturum Vals undir uggum í viðureign liðanna í KA-heimilinu.

Getan er fyrir hendi

„Maður getur alltaf sagt ef og hefði en ef við hefðum leikið í kvöld eins og við gerðum gegn Val fyrir viku þá hefðum við unnið í dag. Það segir okkur að getan er fyrir hendi en því miður er alltof langt á milli góðu kaflanna,“ sagði Arna Valgerður sem eins og aðrir innan KA/Þórs setur undir sig hausinn gegn norðan strekkingnum fyrir endasprett Olísdeildarinnar.

Öllum ljóst hvað við ætlum að gera

„Við róum lífróður til loka deildarkeppninnar. Við eigum eftir að mæta Aftureldingu og Stjörnunni á heimavelli okkar. Öllum má vera ljóst hvað við ætlum að gera í þeim leikjum. Við verðum að sækja tvö stig í hvorri viðureign og helst fá viðbótarstig í öðrum leikjum til þess að halda sæti okkar í deildinni. Við tökum einn leik fyrir í einu. Næsti leikur verður við Stjörnuna í KA-heimilinu á laugardaginn. Þá verður barist upp á líf og dauða,“ sagði Arna Valgerður Erlingsdóttir þjálfari KA/Þórs í samtali við handbolta.is eftir leikinn við ÍR í Skógarseli í Breiðholti í gærkvöld.

Leikir sem KA/Þór á eftir:
Laugardagur 17. febrúar: KA/Þór - Stjarnan, KA-heimilið.
Laugardagur 24. febrúar: Haukar - KA/Þór, Ásvellir.
Föstudagur 8. mars: KA - ÍBV, KA-heimilið.
Laugardagur 16. mars: KA - Afturelding, KA-heimilið.
Laugardagur 21. mars: Fram - KA/Þór, Lambhagahöllin.

Staðan í Olísdeildum.

Tvö góð stig sem færa okkur nær markmiðinu

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -