Landsliðskonan í handknattleik og burðarás í liði Hauka, Elín Klara Þorkelsdóttir, tognaði á vinstri ökkla þegar tvær mínútur voru eftir af fyrri hálfleik í viðureign Hauka og Aftureldingar í Olísdeild kvenna í handknattleik á Ásvöllum í kvöld. Hún kom ekkert við sögu eftir það. Óvíst er ennþá hvort meiðsli eru alvarleg eða ekki.
Skemmst er að minnast þess að Elín Klara sleit liðband í ökkla hálfum mánuði áður en heimsmeistaramótið í handknattleik hófst í lok nóvember. Það var til þess að hún varð að draga sig út úr landsliðshópnum daginn áður en hann fór til Noregs.
Haukar, sem eru í öðru sæti Olísdeildar, sækja Framara heim á laugardaginn og taka á móti KA/Þór á Ásvöllum viku síðar.
Landsleikir á næsta leiti
Eftir það verður gert hlé vegna landsleikja við Svía í undankeppni EM 28. febrúar og 2. mars. Arnar Pétursson hefur ekki enn tilkynnt um hvaða leikmenn hann ætlar að tefla fram í leikjunum en gerir það væntanlega fyrir lok vikunnar.