- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -

Táningalið Fram réði ekki við FH-inga – myndir

Einar Bragi Aðalsteinsson skoraði 9 mörk fyrir FH í kvöld. Mynd/J.L.Long
- Auglýsing -

FH-ingar unnu afar öruggan sigur á nánast ungmennaliði Fram í viðureign liðanna í Olísdeild karla í handknattleik í Kaplakrika í kvöld, 36:25, eftir að hafa verið fimm mörkum yfir í hálfleik, 17:12. FH hefur þar með náð þriggja stiga forskoti í efsta sæti Olísdeildar á nýjan leik.

Vængbrotið lið Fram situr í fimmta sæti. Án Tryggva Garðars Jónssonar og Reynis Þór Stefánssonar, Þorsteins Gauta Hjálmarssonar og fleiri leikmanna verður róðurinn þungur þrátt fyrir mikinn efnivið. Ekki bætti úr skák að markahæsti leikmaður Fram í þessum leik, Marel Baldvinsson, fékk högg á augabrún svo úr blæddi, í síðari hálfleik og kom ekkert við sögu eftir það. Rúnar Kárason varð einnig fyrir hnjaski í leiknum og dró sig í hlé í síðari hálfleik.

Munur á markvörslu

FH-ingar tóku frumkvæðið strax í upphafi og héldu nokkuð öruggu forskoti, þrjú til fimm mörk allan fyrri hálfleikinn. Munaði þar einna mest um markvörsluna. Meðan Daníel Freyr Andrésson varði allt hvað af tók í marki FH, alls 10 skot, voru markverðir Fram Arnór Máni Daðason og Lárus Helgi Ólafsson slakir. Gerðu þeir lítið annað en að hirða boltann úr netinu. Staðan var 17:12 FH í hag eftir fyrri hálfleik.

Munurinn jókst á upphafsmínútum síðari hálfleiks. Varnarleikur Fram var ekki góður og FH-ingar þurftu ekki að hafa mikið fyrir mörkunum. Eftir tíu mínútna leik var staðan orðin 24:16.

Tilfinningin var sú að FH-ingar gerðu það sem þurfti til að vinna. Ásbjörn Friðriksson og Aron Pálmarsson sátu á bekknum og hvöttu félaga sína til dáða milli þess sem Ásbjörn settist á þrekhjólið fyrir aftan varamannabekkinn. Hann tók þátt í leiknum þegar kom fram í miðjan hálfleikinn.

Björt framtíð

Þegar leið á síðari hálfleik má segja að ungmennalið Fram, sem hefur gert það gott í Grill 66-deildinni og situr í efsta sæti, hafi verið mætt til leiks. Framtíðin er svo sannarlega björt hjá Fram með allan þann efnivið sem fyrir hendi er. Það nægði skiljanlega ekki gegn efsta liði Olísdeildar að þessu sinni, en það koma dagar og ráð.

Staðan og næstu leikir í Olísdeildunum.

Mörk FH: Einar Bragi Aðalsteinsson 9, Jóhannes Berg Andrason 6, Ásbjörn Friðriksson 5/3, Jakob Martin Ásgeirsson 4, Jón Bjarni Ólafsson 4, Leonharð Þorgeir Harðarson 2, Einar Örn Sindrason 2, Daníel Matthíasson 1, Símon Michael Guðjónsson 1, Birgir Már Birgisson 1, Atli Steinn Arnarson 1.
Varin skot: Daníel Freyr Andrésson 14/2, 38,9% – Axel Hreinn Hilmisson 2, 40%.

Mörk Fram: Marel Baldvinsson 7, Rúnar Kárason 4, Andri Dagur Ófeigsson 3, Jóhann Karl Reynisson 2, Bjartur Már Guðmundsson 2, Dagur Fannar Möller 2, Tindur Ingólfsson 2, Ívar Logi Styrmisson 2, Eiður Rafn Valsson 1.
Varin skot: Lárus Helgi Ólafsson 6, 24% – Arnór Máni Daðason 2, 10%.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -