Æfingar og keppni barna, unglinga og fullorðinna í íþróttum verða heimilaðar frá og með næsta fimmtudegi. Svandís Svavarsdóttir, heilbrigðisráðherra, greindi frá þessu í fréttum Bylgjunnar fyrir fáeinum mínútum.
Þá var hún nýkomin út af ríkisstjórnarfundi þar sem farið var yfir nýja reglugerð um sóttvarnir sem eiga að leysa af núverandi reglur sem gilt hafa síðustu þrjár vikur. Nýja reglugerðin tekur gildi 15. apríl, þ.e. á fimmtudaginn og verður við lýði í þrjár vikur.
Bannað hefur verið að keppa í íþróttum hér á landi frá 24. mars og æfingar í stórum hópum frá sama tíma nema með undanþágu eins og þeirri sem kvennalandsliðið í handknattleik fékk skömmu fyrir páska.
Svandís sagði ennfremur að þau skref sem tekin væru nú væru sambærileg þeim sem stigin voru 13. janúar og í byrjun febrúar.
Ekki kom skýrt fram í máli hennar hvort áhorfendum verði heimilt að mæta á ný á kappleiki. Það mun skýrast þegar reglugerðin verður birt opinberlega í heild sinni.
Uppfært: Áhorfendur mega ekki vera á kappleikjum.