- Auglýsing -
- Elvar Örn Jónsson skoraði sex mörk og var næst markahæstur hjá MT Melsungen þegar liðið vann neðsta lið þýsku 1. deildarinnar, Balingen-Weilstetten, 25:22, á útivelli í gær. Arnar Freyr Arnarsson skoraði ekki mark fyrir Melsungen og sömu sögu er að segja af Daníel Þór Ingasyni leikmanni Balingen. Oddur Gretarsson skoraði eitt mark úr vítakasti fyrir Balingen.
- Melsungen situr áfram í fimmta sæti deildarinnar eftir sigurinn í gær en fimmta sætið er það síðasta sem veitir þýsku karlaliðum þátttökurétt í Evrópukeppni félagsliða á næstu leiktíð. Balingen-Weilstetten rekur lestina með 11 stig eftir 24 leiki.
- Heiðmar Felixson er aðstoðarþjálfari Hannover-Burgdorf sem er í sjötta sæti, fimm stigum á eftir MT Melsungen. Hannover-Burgdorf gerði jafntefli við Eisenach í gærkvöld, 31:31. Þar með komst Eisenach upp úr fallsæti og upp í það sextánda. Bergischer HC féll þar með niður í 17. sæti, stigi á eftir Eisenach.
- Stöðuna í þýsku 1. deildinni og í fleiri deildum evrópsks handknattleiks er að finna hér.
- Arnór Atlason þjálfari TTH Holstebro fagnaði langþráðum sigri á heimavelli í gærkvöld þegar leikmenn hans lögðu liðsmenn Ribe-Esbjerg, 30:24, á heimavelli. Elvar Ásgeirsson skoraði fjögur mörk og átti fjórar stoðsendingar í liði Ribe-Esbjerg. Ágúst Elí Björgvinsson markvörður varði eitt skot í marki Ribe-Esbjerg af þeim sjö sem hann fékk á sig meðan hann stóð vaktina.
- TTH Holstebro er í 11. sæti dönsku úrvalsdeildarinnar þegar tvær umferðir eru eftir. Liðið á ekki möguleika á að komast í hóp efstu átta sem leika um meistaratitilinn í vor. Ribe-Esbjerg er í sjöunda sæti og ætti að ná inn í úrslitakeppnina.
- Stöðuna í dönsku úrvalsdeildinni og í fleiri deildum evrópsks handknattleiks er að finna hér.
- Tryggvi Þórsson skoraði eitt mark þegar lið hans IK Sävehof gerði jafntefli við HK Aranäs, 37:37, í sænsku úrvalsdeildinni í gær. Þrjár umferðir eru eftir af deildarkeppninni og er IK Sävehof orðið deildarmeistari, liðið er átta stigum á undan Hammarby sem er í öðru sæti.
- Grétar Ari Guðjónsson markvörður varði 12 skot, 41%, í marki Sélestat þegar liðið tapaði fyrir Tremblay, 29:22, í næst efstu deild franska handknattleiksins í gærkvöld. Sélestat er í fjórða sæti deildarinnar þegar 10 umferðir eru eftir með 25 stig. Tremblay hefur yfirburði í deildinni, 38 stig eftir 20 leiki, og stefnir hraðbyri upp í deild þeirra bestu á nýjan leik.
- Auglýsing -