„Þessi staða okkar er ánægjuleg og við tökum henni fegins hendi,“ sagði Snorri Steinn Guðjónsson landsliðsþjálfari karla í handknattleik um þá staðreynd að karlalandsliðið verður í fyrsta styrkleikaflokki þegar dregið verður í riðla undankeppni Evrópumótsins 2026 í kóngsins Kaupmannahöfn fimmtudaginn 21. mars. Undankeppnin hefst í nóvember og lýkur í maí á næsta ári.
Stutt á milli
„Það er vissulega gott að verða ekki í riðli með allra sterkustu liðunum en það hefur reyndar sýnt sig á síðustu árum að það getur verið stutt á milli. Fleiri lið hafa sótt í sig veðrið og orðin sterkari en áður. Þess vegna er dýrt að slaka á,“ sagði Snorri Steinn ennfremur þegar handbolti.is heyrði í honum í Aþenu í gær.
Handknattleikssamband Evrópu, EHF, staðfesti í upphafi vikunnar hvernig skipast hefur í styrkleikaflokkana fjóra. Reyndar er það eingöngu ítrekun á upplýsingum sem EHF dreifði síðla í síðasta mánuði.
Styrkleikaflokkarnir:
1. flokkur: Þýskaland, Spánn, Ungverjaland, Ísland, Króatía, Slóvenía, Portúgal, Holland.
2. flokkur: Austurríki, Svartfjallaland, Serbía, Pólland, Tékkland, Norður Makedónía, Færeyjar, Grikkland.
3. flokkur: Bosnía, Slóvakía, Belgía, Sviss, Rúmenía, Litáen, Úkraína, Ítalía.
4. flokkur: Finnland, Ísrael, Eistland, Georgía, Tyrkland, Lúxemborg, Kósovó, Lettland.
- Danmörk, Svíþjóð, Noregur og Evrópumeistarar Frakklands taka ekki þátt í undankeppninni.
- Hvíta-Rússland og Rússland taka ekki þátt í mótum á vegum EHF vegna innrásar Rússa í Úkraínu en Hvít-Rússar er taglhnýtingar Rússa í þeim efnum.
- Ísland verður dregið gegn einu liði úr öðrum, þriðja og fjórða flokki. Þar með verður til fjögurra liða riðill.
- 20 þjóðir komast áfram aðalkeppnina sem fram fer í Danmörku, Noregi og Svíþjóð frá 15. janúar til 1. febrúar 2026.
Leikdagar:
1. umferð: 6. og 7. nóvember 2024.
2. umferð: 9. og 10. nóvember 2024.
3. umferð: 12. og 13. mars 2025.
4. umferð: 15. og 16. mars 2025.
5. umferð: 7. og 8. maí 2025.
6. umferð: 11. maí 2025.