Kátt er á hjalla í herbúðum norska karlalandsliðsins eftir að það vann sér í kvöld inn þátttökurétt í handknattleikskeppni Ólympíuleikanna sem fram fara í París í sumar. Norðmenn tryggðu sér farseðilinn til Parísar með því að leggja Ungverja, 29:25, í annarri umferð 3. riðils forkeppni leikanna í Tatabánya í Ungverjalandi í kvöld.
Þar með sendir Noregur tvö landslið í handknattleikskeppni leikanna en kvennalandsliðið verður með að vanda og tekur þátt sem ríkjandi Evrópumeistari.
Norska karlalandsliðið hefur unnið tvo fyrstu leiki sína í forkeppninni og á leik við Túnis í síðustu umferðinni annað kvöld. Ungverjar og Portúgalar eigast við í hreinum úrslitaleik um keppnisrétt á Ólympíuleikunum í síðasta leik 3. riðils annað kvöld.
Portúgalska landsliðið vann Túnis í dag, 37:29, eftir tap fyrir Noregi á fimmtudagskvöld, 32:29.
Tobias Schjølberg Grøndahl skoraði átta mörk fyrir norska landsliðið í sigurleiknum á Ungverjum. Alexandre Blonz var næstur með sjö mörk. Kristian Bjørnsen skoraði fjórum sinnum.
Richárd Bodó, Bendegúz Bóka, Gergö Fazekas og Bence Imre skoruðu þrjú mörk hver fyrir Ungverja.
Þrjú sæti eftir
Spánverjar, Króatar og Norðmenn hafa tryggt sér keppnisrétt í handknattleikskeppni Ólympíuleikanna í sumar. Hverjir hreppa þrjú síðustu sætin skýrist annað kvöld þegar forkeppninni lýkur.
Auk þess voru sex þjóðir öruggar um sæti í handknattleikskeppni karla á ÓL 2024:
Frakkland, gestgjafi.
Danmörk, heimsmeistari.
Japan, vann forkeppni Asíu.
Argentína, vann forkeppni Suður Ameríku.
Egyptaland, Afríkumeistari.
Svíþjóð, frá EM karla 2024.
Úrslit og staðan á hlekknum hér fyrir neðan: