- Auglýsing -
- Guðjón L. Sigurðsson verður eftirlitsmaður á síðari leik Evrópumeistara Vipers og ungverska liðsins í DVSC Schaeffler í fyrstu umferð útsláttarkeppni Meistaradeildar Evrópu í kvennaflokki á laugardaginn. Leikurinn fer fram í Kristjánsandi í Noregi. Vipers vann fyrri viðureignina sem fram fór í Debrecen um síðustu helgi, 29:28.
- Óðinn Þór Ríkharðsson skoraði átta mörk, þar af fimm úr vítaköstum, í 10 marka sigri liðs hans, Kadetten Schaffhausen, 39:29, á HSC Suhr Aarau á útivelli í 26. umferð svissnesku A-deildarinnar í handknattleik í gær. Kadetten er lang efst og á deildarmeistaratitilinn vísan.
- Sigvaldi Björn Guðjónsson var ekki á meðal þeirra sem skoraði fyrir norska meistaraliðið Kolstad í gær þegar það lagði Viking TIF, 35:28, í 23. umferð norsku úrvalsdeildarinnar í handknattleik. Kolstad er efst í deildinni með 43 stig, fjórum stigum á undan Elverum sem lagði Runar í gær, 35:29, á heimavelli.
- Silkeborg-Voel, liðið sem Andrea Jacobsen leikur með, hafnaði í fimmta sæti í dönsku úrvalsdeildinni. Síðasta umferðin fór fram í gærkvöld. Silkeborg-Voel vann Ajax, 30:26, á heimavelli. Andrea tók ekki þátt í leiknum. Hún hefur ekki jafnað sig eftir að hafa fengið höfuðhögg í janúar.
- Silkeborg-Voel er þar með eitt átta liða sem tekur þátt í úrslitakeppninni um danska meistaratitilinn þegar keppni hefst um titilinn í tveimur riðlum í næsta mánuði. Silkeborg-Voel verður í riðli með Esbjerg, NFH (Nykøbing) og SønderjyskE.
- Esbjerg vann Bjerringbro, 37:20, í síðustu umferð og vann þar með allar 26 viðureignir sínar í vetur. Esbjerg skrifaði þar með nýja kafla í danskri handknattleikssögu en aldrei áður hefur lið unnið allar viðureignir sínar í úrvalsdeildinni í Danmörku, hvort heldur í kvenna- eða karlaflokki.
- Vilborg Pétursdóttir skoraði fimm mörk þegar lið hennar, AIK í Stokkhólmi, vann Tumba HBK, 32:31, á útivelli í síðustu umferð þriðju efstu deildar kvenna á sunnudaginn. Eins og kom fram á handbolti.is vann AIK deildina örugglega og endurheimti þar með sæti í sitt í Allsvenskan eftir eins árs fjarveru. AIK fékk 42 stig í 22 leikjum, vann 20 og gerði tvö jafntefli.
- Auglýsing -