- Auglýsing -
- Halldór Jóhann Sigfússon þjálfari Nordsjælland fagnaði sigri á Holstebro, 28:27, í fyrstu umferð umspils fimm liða úr neðri hluta dönsku úrvalsdeildarinnar á heimavelli í gær. Arnór Atlason er þjálfari Holstebro. Liðin fimm í neðri hlutanum mætast í einfaldri umferð. Neðsta liðið þegar upp verður staðið mætir liði úr næst efstu deild í þriggja leikja rimmu um sæti í úrvalsdeildinni á næstu leiktíð.
- Óðinn Þór Ríkharðsson skoraði sjö mörk í níu skotum þegar Kadetten Schaffhausen vann Wacker Thun örugglega, 34:24, í fyrstu umferð átta liða úrslitum svissnesku úrvalsdeildarinnar í handknattleik á heimavelli í gær. Næst mætast liðin á föstudaginn.
- Bjarki Már Elísson og liðsfélagar í Telekom Veszprém hafa áfram mikla yfirburði í ungversku 1. deildinni í handknattleik. Þeir unnu sinni 20. leik í deildinni í gær. Veszprém vann HSA NEKA , 42:27, á heimavelli. Bjarki Már skoraði fjögur mörk. Veszprém er sex stigum á undan Pick Szeged sem á leik til góða. Enn eru sex umferðir eftir af deildarkeppninni.
- Díana Dögg Magnúsdóttir skoraði þrjú mörk og gaf sex stoðsendingar þegar lið hennar BSV Sachsen Zwickau tapaði fyrir þýsku meisturunum Bietigheim, 40:25, í þýsku 1. deildinni í gær. Hún átti einnig tvö sköpuð færi, þrjú fiskuð vítaköst, stal boltanum einu sinni og var vikið einu sinni af leikvelli í tvær mínútur. Díönu og félögum gekk vel í fyrri hálfleik og voru aðeins þremur mörkum undir, 19:16. Í síðari hálfleik var á hinn bóginn á brattann að sækja.
- Mikill munur er á liðunum. Bietigheim er taplaust í efst sæti með 36 stig meðan Zwickau er í 11. sæti með 10 stig. Ekkert verður leikið í þýsku 1. deildinni í kvennaflokki næstu vikur. Á næstu dögum leikur þýska landsliðið í undankeppni EM, eins og fleiri landslið. Að þeim leikjum loknum tekur við forkeppni Ólympíuleikanna en í henni tekur þýska landsliðið m.a. þátt.
- Andrea Jacobsen var öðru sinni í röð með eftir meiðsli í leikmannahópi Silkeborg-Voel í gær þegar liðið tapaði fyrir Esbjerg, 38:27, á útivelli í annarri umferð úrslitakeppni dönsku úrvalsdeildarinnar í handknattleik. Andrea kom ekkert við sögu í leiknum. Silkeborg-Voel hefur tapaði fyrstu tveimur leikjum sínum í úrslitakeppninni sem leikin er í tveimur fjögurra liða riðlum. Hlé verður gert á úrslitakeppninni fram yfir miðjan apríl vegna landsleikja.
- Auglýsing -