„Við ætlum bara að vinna leikinn gegn Lúxemborg. Við tókum vel á því gegn þeim hér heima í haust. Ekki stendur annað til en að gera það aftur í síðari leiknum,“ sagði Hafdís Renötudóttir landsliðsmarkvörður í handknattleik í samtali við handbolta.is. Á morgun klukkan 16.45 mætir íslenska landsliðið því lúxemborgíska í undankeppni Evrópumótsins. Viðureignin fer fram í Lúxemborg. Með íslenskum sigri verður farseðilinn tryggður á Evrópumótið sem haldið verður undir árslok.
Eins og kom fram hjá Hafdísi þá tóku leikmenn íslenska liðsins vel á því gegn landsliðið Lúxemborga í fyrri leiknum. Uppskeran var 18 marka sigur, 32:14. Miðið við þann mikla mun sem þá var á landsliðunum má telja víst að um stórslys verði að ræða takist íslenska liðinu ekki að vinna öruggan sigur á morgun þótt leikið verði á útivelli.
(Myndir fyrir og á æfingu í keppnishöllinni í dag).
Viljum ekki vera á gráu svæði
Hafdís segir ekkert annað koma til greina en sigur í báðum leikjum, gegn Lúxemborg og á móti Færeyingum á sunnudaginn á Ásvöllum.
„Það er ljúft að vita og hugsa að með sigri í Lúxemborg verði EM-sæti í höfn. Við ætlum að taka þetta alla leið og vinna einnig Færeyjaleikinn. Við viljum hafa stöðu okkar örugga, ekki vera á gráu svæði þegar upp verður staðið. Okkar markmið er að ná öðru sæti riðilsins og fara beina leið á EM, ekki í gegnum þriðja sætið,“ sagði Hafdís.
Þriðja sæti gefur farseðil
Undankeppni EM lýkur á sunnudaginn. Tvö efstu lið hvers undanriðils, þeir eru átta, komast í lokakeppni Evrópumótsins í desember auk fjögurra liða sem ná bestum árangri í þriðja sæti. Sigur á morgun tryggir íslenska landsliðinu hið minnsta þriðja sæti í 7. riðli. Sé lítið til annarra úrslita í undankeppninni til þessa í öllum riðlum er víst að eitt af liðunum fjórum sem fara áfram úr þriðja sæti kemur úr riðli sjöunda riðli.
Hafdís vonast ennfremur að með því að ná öðru sæti í riðlum, fremur en því þriðja, þá standi íslenska liðið e.t.v. aðeins betur að vígi þegar dregið verður í riðla aðalkeppninnar 18. apríl í Vínarborg.
Góður kjarni
„Þrátt fyrir miklar breytingar á hópnum á síðustu mánuðum og árum þá stendur eftir góður kjarni leikmanna sem þekkir vel hvað við erum að fara út í,“ sagði Hafdís Renötudóttir annar markvörður íslenska landsliðsins sem stendur í ströngu í Lúxemborg.
Íslenska landsliðið kom til Lúxemborgar í gær, mánudag, og heldur á fimmtudagsmorgun og hefur undirbúning við leikinn gegn Færeyingum sem hefst klukkan 17 á sunudaginn. Frítt verður á leikinn á Ásvöllum í boði Icelandair.
Sjá einnig: EM kvenna ’24: Úrslit og staðan – 3. og 4. umferð