Elliði Snær Viðarsson lét hressilega til sín taka í kvöld í Íslendingaslag í þýsku 1. deildinni í handknattleik þegar Gummersbach vann neðsta lið deildarinnar, Balingen-Weilstetten, með átta marka mun á heimavelli, 33:25. Elliði Snær skoraði átta mörk í níu skotum og var næst markahæstur leikmanna liðsins. Milos Vujovic skoraði tíu sinnum.
Arnór Snær Óskarsson skoraði ekki mark fyrir Gummersbach í leiknum. Hann átti eina stoðsendingu. Guðjón Valur Sigurðsson er þjálfari Gummersbach sem situr í sjötta sæti deildarinnar.
Oddur Gretarsson skoraði fjögur mörk, öll úr vítaköstum, fyrir Balingen-Weilstetten. Daníel Þór Ingason skoraði tvö mörk.
Balingen-Weilstetten hefur átt erfitt uppdráttar á keppnistímabilinu og er í neðsta sæti deildarinnar með 11 stig að loknum 28 leikjum. Liðið á sex leiki eftir óleikna. Bergischer er næst fyrir ofan með 13 stig.
Hannver-Burgdorf tapaði á heimavelli fyrir HSV Hamburg, 26:25, í hörkuleik. Heiðmar Felixsson er aðstoðarþjálfari Hannover-Burgdorf.
Staðan: