- Auglýsing -
- Fredericia HK, liðið sem Guðmundur Þórður Guðmundsson þjálfari og Einar Þorsteinn Ólafsson leikur með, tapaði öðru sinni í úrslitakeppninni um danska meistaratitilinn í gærkvöld. Að þessu sinni beið Fredericia HK lægri hlut fyrir Skjern á heimavelli, 30:28. Einar Þorsteinn skoraði tvisvar sinnum.
- Leikið er í tveimur fjögurra liða riðlum í átta liða úrslitum dönsku úrvalsdeildarinnar. Fredericia HK, sem hóf keppni í sínum riðli með tvö stig í forgjöf vegna góðrar frammistöðu í deildarkeppninni í vetur, rekur nú lestina í riðli tvö með tvö stig.
- Skjern er efst með fjögur stig en liðið hefur unnið báðar viðureignir sínar til þessa. GOG er með þrjú stig og Ringsted tvö stig en liðið vann Fredericia HK á föstudaginn. Enn eru fjórar umferðir eftir og næg tækifæri fyrir leikmenn Fredericia HK til að snúa við blaðinu.
- Dana Björg Guðmundsdóttir skoraði fimm mörk fyrir Volda þegar liðið tapaði í heimsókn til Fjellhammer í gær í næsta efstu deild norska handknattleiksins. Birta Rún Grétarsdóttir var ekki með Fjellhammer.
- Volda er í öðru sæti næst efstu deildar með 36 stig þegar liðið á tvo leiki eftir. Flint Tønsberg er einu stigi og einum leik á eftir. Liðin í öðru og þriðja sæti fara í umspil um keppnisrétt í úrvalsdeildinni í vor. Ljóst er að Volda og Flint mætast í umspilinu.
- Haslum er lang efst og á víst sæti í úrvalsdeildinni. Fjellhammer er í fjórða sæti og verður áfram í næst efstu deild hvernig sem tveir síðustu leikir liðsins enda.
- Damir Doborac hefur verið ráðinn landsliðsþjálfari Bosníu í handknattleik karla. Doborac er 43 ára gamall. Hann hefur þjálfað í heimalandinu síðustu ári. Doborac lék handknattleik um árabil m.a. með Magdeburg og Hüttbenberg í Þýskalandi og Kadetten Schaffhasuen í Sviss auk lið í Bosníu og grannlöndum. Bosníumenn mæta Portúgölum í umspili HM í næsta mánuði.
- Auglýsing -