Jovan Kukobat var hetja Aftureldingar í kvöld þegar hann kom í veg fyrir að Stjarnan næði í framlengingu í fyrstu viðureign liðanna í átta lið úrslitum Olísdeildar karla í handknattleik að Varmá. Kukobat varði frá línumanni Stjörnunnar, Þórði Tandra Ágústssyni, úr opnu færi þegar ein sekúnda var eftir.
Aftureldingarmenn fögnuðu naumum sigri, 29:28, meðan Stjörnumenn gengu vonsviknir af leikvelli og hafa væntanlega hugsað Mosfellingum þegjandi þörfina enda stutt í næsta leik. Liðin mætast öðru sinni í Mýrinni í Garðabæ á laugardaginn klukkan 16. Vinna þarf tvisvar sinnum til að öðlast sæti í undanúrslitum.
Mosfellingar voru tveimur mörkum yfir í hálfleik, 14:12, og voru með þriggja til fjögurra marka forskot allt þangað til að síðustu 10 mínúturnar runnu upp. Þá rann móður á Stjörnumenn og Mosfellingar gáfu eftir auk þess að gera sig seka um mistök eins og láta reka sig út af fyrir leikaraskap.
Stjörnumönnum mistókst að skora úr fjórum vítum í leiknum. Það síðasta fór forgörðum hjá Hergeiri Grímssyni í stöðinni, 29:27, þegar þrjár mínútur voru til leiksloka.
Taugar manna voru þandar á síðustu mínútunum. Adam Thorstensen varði vítakast Blæs Hinrikssonar þegar 45 sekúndur voru eftir að leiktímanum í stöðunni 29:29. Stjörnumenn fengu síðustu sóknina og áttu tvö markskot á síðustu sekúndum en hvorugt fór í marknetið.
Kukobat sá til þess með því að verja einu tvö skot sín í leiknum.
Aftureldingarliðið byrjaði leikinn afar vel og var yfir, 9:3, eftir um stundarfjórðung þegar Stjörnumenn áttuðu sig á að leikurinn væri hafinn. Þeim tókst þó aldrei að komast yfir þótt þeir saumuðu hressilega að Mosfellingum.
Ljóst er að sjóða mun á keipum í Mýrinni á laugardaginn.
Mörk Aftureldingar: Árni Bragi Eyjólfsson 8, Birgir Steinn Jónsson 7, Ihor Kopyshynskyi 4, Birkir Benediktsson 4, Bergvin Þór Gíslason 2, Blær Hinriksson 2/1, Harri Halldórsson 1, Jakob Aronsson 1.
Varin skot: Brynjar Vignir Sigurjónsson 11/2, 32,4% – Jovan Kukubat 2, 28,6%.
Mörk Stjörnunnar: Jón Ásgeir Eyjólfsson 5, Starri Friðriksson 5, Tandri Már Konráðsson 5/1, Þórður Tandri Ágústsson 3, Pétur Árni Hauksson 3, Benedikt Marinó Herdísarson 2, Daníel Karl Gunnarsson 2, Egill Magnússon 2, Hergeir Grímsson 1.
Varin skot: Adam Thorstensen 11/2, 28,9%.
Tölfræði leiksins hjá HBStatz.
Sjá einnig:
Myndskeið: Mætum brjálaðir á laugardaginn
Myndskeið: Áttum að klára þennan leik betur