„Ég fæ líklega mínar fyrstu mínutur í kvöld,“ sagði Haukur Þrastarson, handknattleiksmaðurinn efnilegi og landsliðsmaður, þegar handbolti.is heyrði í honum í morgun. Haukur kvaddi Selfoss-liðið í sumar og gekk til liðs við eitt stærsta félagslið Evrópu, Vive Kielce. Kielce mætir Szczecin í pólsku úrvalsdeildinni í kvöld.
Haukur var svo óheppinn að ristarbrotna skömmu eftir komuna til Kielce í sumar. Af þeim sökum lék hann ekkert með liðinu á undirbúningstímanum og var fjarri góðu gamni í fyrsta deildarleik liðsins um síðustu helgi.
„Endurhæfingin hefur gengið vonum framar og ég er orðinn leikfær,“ sagði Haukur sem er einn efnilegasti handknattleiksmaður Evrópu um þessar mundir og var undir smásjá allra stærstu félagsliða álfunnar áður enn ákvað að semja við Kielce.