Íslendingaliðin Kolstad, Drammen og ØIF Arendal tryggðu sér sæti í undanúrslitum í norsku úrvalsdeildinni í handknattleik karla í kvöld þegar þau lögðu andstæðinga sína í annarri umferð átta liða úrslita.
Sigvaldi Björn Guðjónsson og samherjar í Kolstad lögðu Halden örugglega á útivelli, 26:23. Sigvaldi Björn skoraði þrisvar sinnum.
Dagur Gautason skoraði tvisvar sinnum fyrir ØIF Arendal í fimm marka sigri á Nærbø á heimavelli síðarnefnda liðsins, 33:28. Val stendur yfir í „eftirlæti áhorfenda“ í norsku úrvalsdeildinni. Dagur er einn þeirra sem kemur til greina eftir að hafa staðið sig vel með Arendal-liðinu á tímabilinu.
Drammen vann Runar öðru sinni með eins marks mun, 28:27, og komst þar með í undanúrslit. Leikið var í Drammenhallen. Róbert Sigurðarson var í leikmannahópi Drammen í leiknum og var einu sinni vikið af leikvelli. Viktor Petersen Norberg skoraði sex af mörkum Drammenliðsins.
Átta liða úrslit halda áfram á morgun þegar Elverum og Bergen Håndbold mætast. Elverum vann fyrri leikinn með 18 marka mun, 36:18.