„Fyrst og fremst var þetta góð liðsframmistaða,“ sagði Sigursteinn Arndal þjálfari FH í samtali við handbolta.is í Kaplakrika í dag eftir fimm marka sigur FH á ÍBV í fyrstu viðureign liðanna í undanúrslitum Olísdeildar karla í handknattleik, 36:31.
„Ég er líka mjög ánægður með hvernig við héldum haus alveg til loka. Það var mjög mikilvægt að ná frumkvæðinu í fyrri hálfleik. Vitað var að Eyjamenn gæfust aldrei upp. Það var sterkt hjá okkur að takast að halda þeim í skefjum eftir að við náðum forskotinu í fyrri hálfleik,“ sagði Sigursteinn en ÍBV tókst aldrei að jafna metin eftir að FH komst fimm mörkum yfir í fyrri hálfleik. „Við höfum oft náð frumkvæði í leikjum en það var sterkt að halda út,“ sagði Sigursteinn.
„Við lögðum ríka áherslu á það fyrir leikinn í dag að ná yfirhöndinni í einvíginu. Það er mikilvægt,“ sagði Sigursteinn sem var lukkulegur með sigurinn og reiknar með að eitthvað megi færa til betri vegar fyrir næstu viðureign sem verður í Vestmannaeyjum á sumardaginn fyrsta.
Sumarferð til Eyja á fimmtudaginn
„Ég vona svo innilega að FH-ingar nýti frídaginn á fimmtudaginn til þess að fjölmenna í sumarferð til Eyja og hjálpi okkur í þessari baráttu,“ sagði Sigursteinn Arndal þjálfari FH sem var mjög ánægður með stemninguna í Kaplakrika en vel á annað þúsund áhorfendur mættu og keyrðu upp góða stemningu.
Nánar er rætt við Sigurstein á myndskeiðinu efst í fréttinni.