- Auglýsing -
- Danski landsliðsmarkvörðurinn Niklas Landin verður a.m.k. ekki með danska liðinu Aalborg Håndbold í fyrsta undanúrslitaleiknum um danska meistaratitilinn gegn Skjern á fimmtudaginn. Eins og kom fram á handbolti.is fyrir helgina þá varð Landin að draga sig út úr landsliðinu sem tók þátt í móti í Arendal í Noregi vegna afleiðinga þess að hann fékk boltann í höfuðið, við annað augað, í viðureign Aalborg og Bjerringbro/Silkeborg 5. maí.
- Við rannsóknir hefur komið fram að blætt hafði inn á nethimnu á öðru auga. Landin verður að taka því rólega á næstunni af þessum sökum. Mjög sennilegt er að Landin missi einnig af síðari leiknum við Skjern á sunnudaginn.
- Svartfellski landsliðsmaðurinn Branko Vujovic hefur samið við Dinamo Búkarest til næstu þriggja ára. Eins og kom fram um helgina yfirgefur Vujovic Hannover-Burgdorf í sumar eftir tveggja ára veru og færeyski handknattleiksmaðurinn og fyrrverandi liðsmaður Fram, Vilhelm Poulsen, kemur í staðinn.
- Enn er beðið niðurstöðu í máli svissneska landsliðsmarkvarðarins Nikola Portner innan þýska handknattleikssambandsins. Portner féll á lyfjaprófi fyrir nokkrum vikum og fékk staðfestingu á dögunum þegar niðurstaða úr B-sýninu sýndi sömu niðurstöðu og A-sýnið. Lyfjanefnd þýska handknattleikssambandsins er með málið á sinni könnu enda er Portner leikmaður SC Magdeburg. Eitthvað vefst það fyrir mönnum hver refsing Portners skal vera. Hann hefur hvorki æft né leikið með Magdeburg síðan niðurstaðan úr lyfjaprófinu lá fyrir en merki um neyslu á methamphetamine greindust í sýnum Portners í lyfjaprófinu.
- Auglýsing -