Elísa Elíasdóttir landsliðskona í handknattleik úr Vestmannaeyjum hefur samið við Íslands- og bikarmeistara Vals til næstu þriggja ára. Elísa, sem er línukona og einnig afar sterk varnarkona, hefur leikið stórt hlutverk hjá ÍBV undanfarin ár auk þess að eiga sæti í landsliðinu, m.a. á HM í lok síðasta árs.
Sjá einnig: ÍBV leitar að línumönnum
Ljóst er að með komu Elísu til Vals styrkist lið Íslandsmeistaranna talsvert. Valur bar ægishjálm yfir önnur lið í Olísdeildinni og í Poweradebikarnum á nýliðinni leiktíð. Vann liðið 29 af 30 leikjum tímabilsins. Þar af allar sex viðureignirnar í úrslitakeppninnni.
Elísa er fædd árið 2004 og verður því tvítug á þessu ári. Hún hefur verið lykilmanneskja í yngri landsliðum Íslands ásamt að hafa leikið 14 A-landsleiki. Fyrir dyrum stendur hjá Elísu að leika með 20 ára landsliðinu á heimsmeistaramótinu sem fram fer í Norður Makedóníu frá 19. til 30. júní.
„Frábær viðbót“
„Það er ánægjulegt að fá Elísu til liðs við félagið. Ég hef mikla trú á henni enda er hún sterkur leikmaður beggja megin á vellinum. Hún á eftir að stíga góð skref hjá okkur og er frábær viðbót við okkar sterka leikmannahóp,“ segir Ágúst Þór Jóhannsson þjálfari Valsliðsins í tilkynningu handknattleiksdeildar í tilefni komu Elísu til félagsins.