„Segja má að það hafi verið stöngin út hjá okkur í kvöld í samanburði við að það var stöngin inn hjá okkur á sunnudaginn í Krikanum. Það er bara svo stutt á milli þessara liða að hvert atriði getur skipt sköpum þegar upp er staðið,“ sagði Gunnar Magnússon þjálfari Aftureldingar við handbolta.is eftir eins marks tap fyrir FH, 28:27, í öðrum úrslitaleiknum um Íslandsmeistaratitilinn í handknattleik karla að Varmá í kvöld.
Eigum inni fyrir næsta leik
„Undir lokin fengum við á okkur ruðning og klúðruðum dauðafæri í næstu sókn á eftir meðan FH-ingar skora á sama tíma. Þannig er það. Einvígið er rétt að byrja og ekkert annað í boði en að ýta þessu frá okkur og fara í næsta leik, áfram gakk,“ sagði Gunnar og bætti við að neistin hafi heldur verið FH-megin í kvöld, ólíkt fyrsta leiknum þegar frumkvæðið var heldur meira með Aftureldingarliðinu. „Við eigum inni fyrir næsta leik.“
Annað væri óeðlilegt
„Auðvitað munar miklu fyrir FH-inga að fá Aron [Pálmarsson] inn í liðið í kvöld. Annað væri óeðlilegt. Þrátt fyrir það þá munar bara svo sáralitlu á liðunum þegar dæmið er gert upp í kvöld. Bara nokkur atriði í allra síðustu sóknunum,“ sagði Gunnar sem hlakkar til næsta leiks á sunnudaginn.
„Við verðum ekki lengi að jafna okkur á þessu. Næsti leikur verður í Krikanum á sunnudaginn. Við mætum fullir sjálfstrausts í þá viðureign,“ sagði Gunnar.
Stoltur af félaginu
Frábær stemning var að Varmá í kvöld. Áhorfendur tóku mjög mikið þátt í leiknum. Troðfullt hús með mjög góðri umgjörð sem félagsmenn lögðu mikla vinnu við að undirbúa. Gunnar lauk lofsorði á kvöldið.
„Umgjörðin var ótrúlega góð. Ég er stoltur af félaginu og öllum þeim sem lögðu hönd á plóginn til að gera þetta jafn glæsilegt og raun bar vitni um. Það var stórkostleg upplifun að spila hérna,“ sagði Gunnar Magnússon þjálfari Aftureldingar í samtali við handbolta.is að Varmá í kvöld.
Sjá einnig:
FH-ingar jöfnuðu metin – Aron kom, sá og sigraði
Það var ekkert annað á dagskrá hjá okkur