- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -

Fékk að súpa seyðið af fyrsta tapi leiktíðarinnar

Ferill Gabor Danyi þjálfara hjá Györ fékk snubbóttari endir en til stóð. Mynd/EPA
- Auglýsing -

Forráðamenn ríkjandi Evrópumeistara í handknattleik kvenna, Györ í Ungverjandi, kunna því mjög illa að lið þeirra tapi leikjum. Óvíða er tapleikjum tekið eins óstinnt upp og hjá ungverska liðinu sem m.a. hefur leikið á sjötta tug leikja í röð án taps í Meistaradeild Evrópu. Þá sjaldan Györ tapar þá hefur það afleiðingar. Fyrir því fékk þjálfarinn Gabor Danyia að finna í gær þegar honum var gert að taka pokann sinn möglunarlaust.


Ástæðan er afhroð sem Györ galt í leik við FTC, Ferencváros, í ungversku úrvalsdeildinni í vikunni, 31:22. Til stóð reyndar að Danyia hætti við lok leiktíðar í sumar en eftir útreiðina var ekki verið að tvínóna við hlutina. Danyia var gert að hætta strax.


Tapið fyrir FTC var það fyrsta hjá Györ á leiktíðinni í 21 leik í ungversku deildinni auk þess sem liðið hefur heldur ekki tapað í Meistaradeild Evrópu hvar liðið er komið í undanúrslit. Þrátt fyrir allt þá stefnir í að Györ verði ekki ungverskur meistari á þessu keppnistímabili þar sem liðið stendur eftir stóra tapið höllum fæti í innbyrðis leikjum gegn FTC. FTC hefur einnig tapað einum leik og á eftir fjóra leiki. Györ á fimm viðureignum ólokið. Miðað við úrslit annarra leikja til þessa er ósennilegt að FTC og Györ tapi fleiri leikjum keppnistímabili. Þar af leiðandi gæti FTC orðið meistari á innbyrðis úrslitum gegn Györ.


Hinn góðkunni spænski þjálfari Ambros Martín tekur við þjálfun Györ í sumar. Óvíst er hvort hann mæti fyrr til leiks. Anita Görbicz, Attila Kun og Zoltán Holanek eiga að halda utan um stjórnun liðsins á næstu æfingum og alltént í næsta kappleik. Görbicz er lifandi goðsögn hjá félaginu og heiðursborgari í Györ. Hún leggur keppnisskóna á hilluna í sumar.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -