- Auglýsing -
- Auglýsing -

„Sárt er að tapa hnífjöfnum leik“

Alfa Brá Oddsdóttir Hagalín og Elísa Elíasdóttir í sóknarhug í leiknum við Portúgal. Mynd/IHF
- Auglýsing -

„Sárt er að tapa hnífjöfnum leik með eins marks mun. Mér finnst við hafa átt að minnsta kosti annað stigið skilið úr leiknum. Stigið hefði tryggt okkur efsta sætið í milliriðlinum. Því miður þá var þetta stöngin út hjá okkur í lokin og portúgalska liðið hirti sigurinn,“ sagði Ágúst Þór Jóhannsson annar þjálfari U20 ára landsliðs kvenna í samtali við handbolta.is eftir eins marks tap, 26:25, fyrir Portúgal í síðari leik milliriðlakeppni heimsmeistaramótsins í handknattleik í Skopje í Norður Makedóníu í kvöld.

Ungverjaland í stað Danmerkur

Þrátt fyrir tapið þá leikur íslenska liðið í átta liða úrslitum á fimmtudaginn. Andstæðingurinn verður lið Ungverja sem varð Evrópumeistari 19 ára landsliða fyrir ári. Ekki verður ráðist á garðinn þar sem hann er lægstur.

Förum vel yfir okkar leik

„Varnarleikurinn hefði mátt vera betri. Við fengum of mörg mörk á okkur af línu og einnig voru vítaköstin af mörg að mínu mati. Þetta er atriði sem við förum yfir í þeim tilgangi að laga. Að sama skapi þykir mér uppstilltur sóknarleikur hafa mátt vera fjölbreytilegri á köflum með framlagi frá fleiri leikmönnum. Hér er einnig um atriði sem við skoðum vel fyrir næsta leik okkar í mótinu,“ sagði Ágúst Þór en frí verður frá leikjum á morgun áður en átta liða úrslitin hefjast á fimmtudaginn.

HMU20 kvenna: Milliriðlar, leikir, úrslit og staðan

Stórtap fyrir ári

Portúgal hafnaði í fjórða sæti á EM 19 ára landsliða á síðasta ári á sama tíma og Ísland varði í 13. sæti.

„Fyrir ári töpuðum við fyrir Portúgal á Evrópumótinu með sextán marka mun. Ári síðari erum við í hörkuleik og töpum með einu marki eftir hetjulega baráttu. Ég er því fyrst og síðast stoltur af liðinu og hversu mikið stelpurnar leggja í hvern einasta leik á mótinu. Við svekkjum okkur aðeins í kvöld en vöknum upp með nýjum degi á morgun og hefjum þá undirbúning fyrir leikinn í átta liða úrslitum á fimmtudaginn,“ sagði Ágúst Þór og bætti við.

Geta verið stoltar

„Stelpurnar geta verið stoltar af frammistöðunni og spilamennskunni á stórum köflum í leiknum í dag. Það eru nokkur lítil atriði sem vantaði upp á og við getum lagað. Í þá vinnu förum við og vonandi verðum við í okkar besta standi í næsta leik á heimsmeistaramótinu,“ sagði Ágúst Þór Jóhannsson annar þjálfara U20 ára landsliðsins í samtali við handbolta.is í kvöld.

Naumt tap í miklum baráttuleik – Ungverjar bíða í 8-liða úrslitum

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -