Svissneski landsliðsmarkvörðurinn Nikolas Portner verður ekki dæmdur í keppnisbann í þýska handknattleiknum þrátt fyrir að hafa fallið á lyfjaprófi síðla í mars. Það er niðurstaða lyfjanefnda deildarkeppninnar sem segir í dag að Portner geti æft og leikið með Þýskalandsmeisturum SC Magdeburg eins og ekkert hafi ískorist. Portner hvorki lék né æfði með Magdeburg eftir að uppvíst varð um fall hans í lyfjaprófi snemma í apríl.
Í lyfjaprófi sem Portner gekkst undir greindust leyfar af methamfetamíni. Í kjölfarið var svokollað B-sýni rannsakað og leiddi það til sömu niðurstöðu. Portner hefur haldið fram sakleysi sínu frá fyrsta degi og m.a. talið mögulegt að hann hafi smitast af einhverjum sem hann umgekkst.
Methamphetamine er örvandi amfetamínlíkt lyf og er stundum notað ólöglega sem slíkt eða sem meðferð við ADHD og heitir þá t.d. Desoxyn. Það er hvorki notað hér á landi við ADHD né er það til sölu, samkvæmt upplýsingum sem handbolti.is fékk hjá þrautreyndum lyfjafræðingi.
Þýska deildarkeppnin tók mótbárum Portners og segir að svo virðist sem lyfið, sem er örvandi, hafi komist í líkama Portners af óþekktum ástæðum. Alltént sé ekki hægt að útiloka það. Þess vegna verður honum ekki gerð refsing, umfram það sem þegar er orðið á þeim nærri þremur mánuðum síðan niðurstaðan lá fyrir.
Portner verður þar með klár í slaginn með SC Magdeburg þegar titilvörn liðsins hefst í lok ágúst í þýsku 1. deildinni.
Ekki er þó alveg víst að Portner sé sloppinn fyrir horn því þýska lyfjaeftirlitið hefur málið ennþá til skoðunar. Lyfjaeftirlitið starfar m.a. undir hatti WADA, alþjóða lyfjaeftirlitsins, en undir það heyra allar íþróttagreinar sem eiga aðild Alþjóða Ólympíusambandinu.
Sjá einnig:
Örvandi efni fannst í markverðinum
Markvörður Evrópumeistaranna féll á lyfjaprófi
B-sýnið sýndi sömu niðurstöðu