- Auglýsing -
- Auglýsing -

Valsmenn uppskáru það sem Víkingar þráðu!

Evrópubikarmeistarar Vals fagna eftir að hafa tekið við sigurlaunum sínum. Ljósmynd/ EHF / Eurokinissi Sports.
- Auglýsing -

Þegar Valsmenn fögnuðu Evrópumeistaratitlinum, Evrópubikarkeppni EHF, í handknattleik í Grikklandi á dögunum voru liðin 31 ár síðan Víkingar létu sig dreyma um og þráðu; Að verða Evrópumeistarar. Ég man alltaf eftir því þegar Jón Hjaltalín Magnússon, fyrrverandi formaður HSÍ og landsliðsmaður í handknattleik í Víkingi, hringdi að kvöldi til, föstudagsins 9. júlí 1993, á ritstjórn Morgunblaðsins í Aðalstræti og tilkynnti að Víkingar hafi tekið stefnuna á Evrópumeistaratitil 1996.

Kraftaverkamaður

Jón Hjaltalín, sem var kraftaverkamaður á handknattleikssviðinu, var duglegur að hafa samband við blaðamenn til að halda þeim við efnið; að sega frá og skrifa um handknattleik. Að sjálfsögðu var sagt frá draumi Jóns og Víkinga; fyrirsögnin var 5 dálka efst á síðu; sjá mynd.

Fyrirsögn á íþróttasíðu Morgunblaðsins 10. júlí 1993.

Jón Hjaltalín sagði þá í símtalinu að fjölmargir fyrrum leikmenn Víkings í handknattleik hafa komið saman og stofnað áhugamannahóp um að styðja við bakið á nýrri stjórn Handknattleiksdeildar Víkings og hvetja hana til dáða.

Kappkosta að byggja upp

„Markmiðið er að miðla af reynslu okkar og það er ekkert launungarmál að takmarkið er Evrópumeistaratitill keppnistímabilið 1995-1996,“ sagði Jón Hjaltalín, sem er forsvarsmaður stuðningsmannahópsins. „Við höfum sett okkur markmið og stefnum síðan markvisst að því að ná því markmiði. Víkingur á marga góða leikmenn og þá á félagið stóran hóp af ungum og efnilegum leikmönnum, sem félagið mun kappkosta að byggja upp fyrir átök framtíðarinnar.“

„Víkingur þarf að fá tvo til þrjá sterka leikmenn til viðbótar. Við munum ná í þá innanlands og erlendis frá. Ég hef góð sambönd um alla Evrópu og mun ég nýta þau í leit að góðum leikmönnum.“

Ekki voru allir ánægðir

Víkingar höfðu sett markið hátt í júlíbyrjun 1993 og það er stórhugur í herbúðum þeirra að sögn Jóns Hjaltalín. „Það eru mörg spennandi verkefni framundan hjá Víkingum,“ sagði Jón Hjaltalín, en það voru ekki allir Víkingar ánægðir með „draum“ Jóns; töldu hann setja óþarfa pressu á Víkingsliðið.

Þess má geta að Víkingsliðið sem var nær óstöðvandi undir stjórn Pólverjans Bogdans á árunum 1979-1987, féll í mikinn öldudal; hefur ekki orðið meistari eða bikarmeistari í 37 ár (síðast 1987) og hefur leikið langtímum saman í 2. deild.

En, það má alltaf láta sig dreyma!

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -