- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -

„Strákarnir voru frábærir“

Einar Andri Einarsson þjálfari. Mynd/IHF/Sasa Pahic Szabo / kolektiff
- Auglýsing -

„Það er alltaf gaman og gott að vinna handboltaleiki og 27 marka munur var góður bónus,“ sagði Einar Andri Einarsson annar þjálfara U20 ára landsliðs Íslands við handbolta.is fyrir stundu eftir 49:22 sigur íslenska landsliðsins á Úkraínupiltum í upphafsleik Evrópumóts landsliða 20 ára liða karla í Slóveníu fyrir hádegið.

„Strákarnir voru frábærir í leiknum. Satt að segja þá höfðum við ákveðnar áhyggur af því hvernig erfitt ferðalag færi í þá en við komum ekki hingað fyrr en í hádeginu í gær eftir næturferðalag frá Íslandi,“ sagði Einar Andri sem var í sjöunda himni með kraftmikla byrjun íslenska liðsins á mótinu. Næsti leikur verður við Pólland á morgun klukkan 14.40.

„Strákarnir nýttu sólarhringinn sem við höfðum til að búa sig af kostgæfni undir leikinn. Maður sá það í morgun fyrir viðureignina að einbeiting skein úr hverju andliti. Frammistaðan var í samræmi við það,“ sagði Einar Andri og bætti við að leikmenn hafi slegið tóninn strax í byrjun.

Slökuðum aldrei á klónni

„Við byrjuðum frábærlega, létum strax vita af okkur og slökuðum aldrei á klónni. Engu máli skipti hvort menn byrjuðu leikinn eða komu inn á þegar á leið. Allir voru virkilega flottir. Okkur tókst að halda dampi allan leikinn, sem er ekkert sjálfgefið þegar andstæðingurinn er veikari,“ sagði Einar Andri og undirrstrikaði að hvert mark og markamunur skipti máli þegar litið er til mótafyrirkomulagsins en eftir riðlakeppnina á laugardaginn taka við milliriðlar á ýmsum stigum mótsins.

„Ég vil hrósa strákunum fyrir að keyra leikinn í gegn, allt til loka. Þar á ofan var mjög gott að koma öllum leikmönnum inn í mótið. Allir leikmenn fengu að spreyta sig sem er afar mikilvægt,“ sagði Einar Andri.

Meiri mótspyrna á morgun

Á morgun mætir íslenska liðið því pólska. Vænta má meiri mótspyrnu frá Pólverjum en Úkraínumönnum.

„Pólverjar og Svíar mætast síðar í dag. Að þeim leik loknum vitum við betur hvar Pólverjar standa. Við förum á þann leik enda er viðureignin við Pólverjar mjög mikilvæg upp á framhaldið að gera. Skammur tími er á milli leikja og mikilvægt að halda fókus. Við verðum að kalla fram sömu frammistöðu á morgun á móti Pólverjum og gegn Úkraínu í dag. Það er lykilatriði upp á framhaldið,“ sagði Einar Andri Einarsson þjálfari U20 ára landsliðs karla í handknattleik í símaviðtali við handbolta.is. Halldór Jóhann Sigfússon þjálfar íslenska liðið ásamt Einari Andra.

Sjá einnig:

Hófu EM með 27 marka sigri

EMU20 karla: Leikir, úrslit og staðan, riðlakeppni

Yngri landslið.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -