- Auglýsing -
- Inga Sól Björnsdóttir hefur gert nýjan tveggja ára samning við handknattleiksdeild Umf. Selfoss. Hún hefur verið mikilvægur hlekkur í meistaraflokksliði Selfoss undanfarin fjögur ár, segir í tilkynningu frá handknattleiksdeild Umf. Selfoss í gær. Selfossliðið vann Grill 66–deildina með yfirburðum á síðasta keppnistímabili og leikur þar af leiðandi í Olísdeildinni á komandi vetri.
- Svavar Ólafur Pétursson og Sigurður Hjörtur Þrastarson slá ekki slöku við á Evrópumóti 20 ára landsliða karla í handknattleik í Slóveníu. Þeir dæmdu leik Þýskalands og Serbíu í gær og í dag eiga þeir fyrir höndum að dæma viðureign Austurríkis og Svartfjallalands í A-riðli. Þeir félagar flauta til leiks á slaginu klukkan 14.40.
- Hlynur Leifsson mun heldur ekki flatmaga og sleikja sólina í Celje í Slóveníu dag. Hann á að halda uppi öflugu eftirliti í viðureign Serbíu og Portúgal fyrri hluta dagsins í dag á Evrópumóti 20 ára landsliða karla. Hann fær rétt að kasta mæðinni áður en hann mætir á leik Grikkja og Þjóðverja til þess að sjá um að allt fari fram eftir bókinni. Það er svo sannarlega nóg að gera hjá Hlyni því hann var einnig í eftirliti á tveimur leikjum í gær.
- Kári Garðarsson fyrrverandi framkvæmdastjóri og handknattleiksþjálfari hjá Gróttu hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri Samtakanna ’78. Kári lét af störfum hjá Gróttu á síðasta vetri. Hann þjálfaði m.a. sigursælt kvennalið Gróttu sem vann fyrsta Íslandsmeistaratitil félagsins í meistaraflokki í boltaíþrótt vorið 2015. Liðið lék sama leik árið eftir auk þess að vinna bikarkeppnina snemma árs 2015.
- Franski handknattleiksmaðurinn Dika Mem meiddist á þumalfingri á æfingu franska landsliðsins í fyrradag. Af þeim sökum hefur Kentin Mahé verið kallaður inn til æfinga með landsliðinu en hann var sendur heim í byrjun vikunnar þegar 14 manna keppnishópur franska landsliðsins fyrir Ólympíuleikana var valinn.
- Á þessari stundu er óvíst hvort Mem verður orðinn heill heilsu áður en leikarnir hefjast. Takist Mem ekki að vera með á leikunum verður það verulegt áfall fyrir franska landsliðið sem ætlar sér að vinna gull í handknattleikskeppninni á heimavelli.
- Króatíski línumaðurinn Veron Nacinovic hefur samið við THW Kiel frá og með sumrinu 2025. Nacinovic er um þessar mundir leikmaður Montpellier í Frakklandi.
- Danski handknattleiksþjálfarinn Stefan Madsen sem hætti þjálfun danska meistaraliðsins Aalborg Håndbold í byrjun júní hefur skrifað undir tveggja ára samning við Al Ahly í Egyptalandi. Madsen hafði verið í 10 ár hjá Aalborg, þar af í sex ár sem aðalþjálfari þegar hann lét af störfum. Tíðindin um samning Madsen við egypska liðið komu á óvart þegar þau spurðust út í gærkvöld.
- Auglýsing -