- Auglýsing -
- Auglýsing -

Molakaffi: Cañellas, Cordalija, Hamani, Gille, Prandi, Keïta

Joan Canellas verður ekki með spænska landsliði á ÓL í París. Mynd/EPA
- Auglýsing -
  • Spænski handknattleiksmaðurinn Joan Cañellas varð að draga sig út úr spænska landsliðinu í handknattleik karla í gær vegna meiðsla. Cañellas mun þar með ekki enda ferilinn á Ólympíuleikum eins og vonir hans stóðu til. Cañellas er einstaklega óheppinn þegar kemur að Ólympíuleikum því hann meiddist einnig rétt fyrir leikana í Tókýó fyrir þremur árum og gat ekki tekið þátt. Jorge Maqueda tekur sæti Cañellas í leikmannhópi spænska landsliðsins sem tekur þátt í Ólympíuleikunum. 
  • Bekir Cordalija, tvítugur Bosníumaður, hefur samið við Indurstria Kielce frá og með komandi leiktíð. Hann á að fylla skarð þýska landsliðsmarkvarðarins Anders Wolff sem á dögunum var seldur til THW Kiel. Cordalija er ekki öfundsverður af því að taka við hlutverki eins besta markvarðar heims. Samningur hans er hluti að niðurskurði og sparnaði hjá Industria Kielce sem lengi hefur staðið á fjárhagslegum brauðfótum. 
  • Cherif Hamani, 42 ára gamall Frakki af alsírsku bergi brotinn, hefur verið ráðinn landsliðsþjálfari Belgíu í handknattleik karla. Hamani stýrði Tremblay til sigurs í næst efstu deild franska handknattleiksins í vor. Hann verður áfram hjá félaginu þótt hann hafi tekið að sér starfið hjá belgíska handknattleikssambandinu. 
  • Fyrsta verkefni Hamani með belgíska landsliðið verður þátttaka í undankeppni EM 2026 sem hefst í nóvember og lýkur næsta vor. Belgíska landsliðið er í riðli með landsliðum Króatíu, Lúxemborgar og Tékklands
  • Guillaume Gille þjálfari Evrópumeistara Frakklands í handknattleik mun skrifa undir nýjan samning við franska handknattleikssambandið eftir Ólympíuleikana. Samningurinn verður til næstu fimm ára, eftir því sem Philippe Bana forseti franska handknattleikssambandsins greinir frá. 
  • Elohim Prandi, franski landsliðsmaðurinn, hefur skrifað undir nýjan fjögurra ára samning við PSG. Prandi vakti mikla athygli í vetur þegar hann skoraði ólöglegt mark sem þó stóð í undanúrslitaleik Frakka og Svía á EM karla í handknattleik. Markið tryggði Frökkum framlengingu þar sem þeir höfðu betur. 
  • Annar franskur handknattleiksmaður, Adama Keïta, hefur á hinn bóginn söðlað um eftir sjö ára vist hjá PSG og samið AEK Aþenu. Gríska liðið hefur sótt liðsauka upp á síðkastið og ætlar sér ekki að tapa annað árið í röð fyrir Olympiakos í kapphlaupinu um meistaratitilinn í Grikklandi.
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -