- Auglýsing -
- Leikið verður um sæti 13 til 24 á EM 20 ára landsliða karla í handknattleik í Slóveníu í dag. Hlynur Leifsson verður eftirlitsmaður á leiknum um 19. sætið á milli Ítalíu og Tékklands í Dvorana Golovec í Celje.
- Sigurður Hjörtur Þrastarson og Svavar Ólafur Pétursson dæma ekki á Evrópumótinu í dag. Þeir fá hinsvegar stórverkefni á morgun þegar þeir dæma viðureign Danmerkur og Þýskalands um 3. sætið. Hlynur verður eftirlitsmaður á leik Ungverjalands og Króatíu um 11. sætið á morgun.
- Karlalandslið Þýskalands, undir stjórn Alfreðs Gíslasonar, vann ungverska landsliðið, 33:29, í vináttuleik í Stuttgart í gærkvöld. Leikurinn var sá næst síðasti hjá þýska liðinu áður en það fer til Parísar til þátttöku á Ólympíuleikunum.
- Lukas Mertens, vinstri hornamaður, meiddist í leiknum. Óvíst var í gærkvöld hversu alvarleg meiðslin eru. Þjóðverjar mæta japanska landsliðinu í æfingaleik á laugardaginn.
- Þýska kvennalandsliðið vann það ungverska, 30:29, í síðasta leik liðanna áður en þau fara til Parísar til keppni á Ólympíuleikunum. Þýska liðið var tveimur mörkum undir þegar skammt var til leiksloka en tókst að snúa taflinu við.
- Stine Skogrand skoraði sjö mörk fyrir norska landsliðið, undir stjórn Þóris Hergeirssonar, þegar það lagði danska landsliðið með 11 marka mun, 35:24, í síðasta leik beggja liða áður en haldið verður til Parísar á Ólympíuleikana en þeir verða settir á næsta föstudag. Anne Mette Hansen skoraði sex mörk fyrir danska landsliðið. Leikurinn fór fram í Kaupmannahöfn.
- Auglýsing -