- Auglýsing -
- Auglýsing -

ÓL: Dagur og Króatar sluppu með skrekkinn gegn Japan

Þungu fargi var létt að leikmönnum króatíska landsliðsins þegar þeir tryggðu sér sigur gegn Japan með sigurmarki á síðustu sekúndu. Ljósmynd/EPA
- Auglýsing -

Dagur Sigurðsson og liðsmenn hans í króatíska landsliðinu sluppu með skrekkinn gegn fyrrverandi liðsmönnum Dags í japanska landsliðinu í upphafsleik liðanna í B-riðli handknattleikskeppni Ólympíuleikanna í París eftir hádegið í dag. Ivan Martinovic skoraði sigurmark Króata, 30:29, á síðustu sekúndu leiksins. Aðeins nokkrum sekúndum áður hafði Japaninn Shuichi Yoshuda skotið framhjá króatíska markinu úr opnu færi eftir að hafa náð frákasti.

Voru sex mörkum yfir

Japanir léku frábærlega lengst af leiksins og voru m.a. fimm mörkum yfir að loknum fyrri hálfleik, 18:13. Þeir náðu mest sex marka forskoti áður en króatíska landsliðið vaknaði og tókst að jafna metin og skora sigurmarkið.

Króatar áttu skot framhjá japanska markinu þegar 45 sekúndur voru til leiksloka í jafnri stöðu, 29:29. Japanir hófu sókn og þrátt fyrir leikhlé og tvö marktækifæri tókst þeim ekki að skora 30. markið í lokin sem e.t.v. lýsir óheppni þeirra. Þeir áttu sannarlega sigurinn skilið eftir frábæra frammistöðu gegn króatíska liðinu sem fyrirfram var talið mikið sterkara.

Japaninn Kosuke Yasuhira fagnar einu af mörkum sínum í leiknum. Í bakgrunni er Dagur Sigurðsson og leikmenn króatíska landsliðsins. Ljósmynd/EPA

Eins og kunnugt er þá stýrði Dagur japanska landsliðinu í sjö ár og á þeim tíma m.a. til sigurs í forkeppni Ólympíuleikanna á síðasta vetri. Hann hætti síðan óvænt í byrjun febrúar til að taka við króatíska liðinu. Spánverjinn Carlos Ortega, þjálfari Evrópumeistara Barcelona, er tímabundið þjálfari japanska landsliðsins. Ortega fékk leyfi hjá Barcelona til að nýta sumarfríið til þess að hlaupa undir bagga í Japan.

Mörk Króatíu: Mario Sostartic 6, Ivan Martinovic 4/1, Lovro Mihic 4, Zvonimir Srna 3, Domagoj Duvnjak 3, Marin Sipic 3, Veron Nacinovic 3, Luka Cindric 2, Tin Lucin 2.
Varin skot: Dominik Kuzmanovic 5/1, 25% – Matej Mandic 4, 27%.

Mörk Japans: Kosuke Yasyhira 10/2, Naoki Fujisaka 5, Shuichi Yoshuda 4, Hiroki Motoki 3, Shinnosuke Tokuda 2, Jin Watanabe 2, Tatsuki Yoshino 1, Hiroyasu Tamakawa 1, Tomoya Sakurai 1.
Varin skot: Daisuke Okamoto 9/1, 36% – Takumi Nakamura 1, 7%.

Leikjadagskrá ÓL.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -